Fyrra Korintubréf 14 - Biblían (2007)

Allt með reglu

1Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans en einkum eftir spámannlegri gáfu.

2Því að sá sem talar tungum talar ekki við menn heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma.

3En sá sem flytur orð Guðs talar til manna, þeim til uppbyggingar, hvatningar og huggunar.

4Sá sem talar tungum byggir aðeins upp sjálfan sig en sá sem flytur orð Guðs byggir upp söfnuðinn.

5Ég vildi að þið töluðuð öll tungum en þó enn framar að þið hefðuð spámannlega gáfu. Það er meira vert en að tala tungum nema það sé útlagt, svo að söfnuðurinn hljóti uppbyggingu.

6Hvað mundi ég gagna ykkur, systkin, ef ég nú kæmi til ykkar og talaði tungum en flytti ykkur ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?

7Ef dauðir hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig geta menn þá vitað hvað leikið er á pípuna eða hörpuna?

8Gefi lúðurinn ógreinilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?

9Svo er og um ykkur: Ef þið notið ekki tunguna til að mæla fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið sem þið talið? Þið talið þá út í bláinn.

10Þó að mörg tungumál séu til í heiminum er ekkert þeirra málleysa.

11Ef ég nú skil ekki merkingu málsins verð ég sem útlendingur fyrir þeim sem talar og hann útlendingur fyrir mér.

12Eins er um ykkur. Fyrst þið sækist eftir gáfum andans kappkostið þá að eiga sem mest af þeim til þess að geta eflt söfnuðinn.

13Sá sem talar tungum biðji því um að geta útskýrt það sem hann segir.

14Því að biðjist ég fyrir með tungum biður andi minn að vísu en skilningur minn er ávaxtalaus.

15Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.

16Ef þú lofar Guð með anda hvernig á þá venjulegur maður sem er viðstaddur að geta sagt amen við þakkargjörð þinni þar sem hann skilur ekki hvað þú ert að segja?

17Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur en hún gagnast ekki hinum.

18Ég þakka Guði að ég tala tungum öllum ykkur fremur,

19en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm skiljanleg orð, sem geta frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum sem enginn skilur.

20Systkin, hugsið ekki eins og börn, verið hrekklaus sem börn en hafið dómgreind sem fullorðnir.

21Í lögmálinu er ritað:

Með annarlegu tungutaki

og annarlegum vörum

mun ég tala til þessa fólks

og samt mun það ekki hlýða mér,

segir Drottinn.

22Þannig er tungutalið tákn, ekki trúuðum heldur vantrúuðum. En spámannleg gáfa er ekki tákn vantrúuðum heldur trúuðum.

23Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum og inn kæmu menn utan safnaðar eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: „Þið eruð vitstola“?

24En ef allir töluðu af spámannlegri andagift og inn kæmi einhver vantrúaður maður utan safnaðar, þá mundu allir sannfæra hann og láta hann standa fyrir máli sínu.

25Leyndustu hugsanir hans verða opinberar og hann fellur fram á ásjónu sína, tilbiður Guð og vottar: Guð er sannarlega hjá ykkur.

Þegar þið komið saman

26Hvernig er það þá, kæri söfnuður? Þegar þið komið saman þá hefur hver sitt fram að færa: sálm, kenningu, opinberun, tungutal, útlistun. Allt skal miða til uppbyggingar.

27Séu einhverjir, sem tala tungum, mega þeir vera tveir eða í mesta lagi þrír, hver á eftir öðrum og einn útlisti.

28En ef ekki er neinn til að útlista, þá þegi sá á safnaðarsamkomunni sem talar tungum en tali við sjálfan sig og við Guð.

29En spámenn tali tveir eða þrír og hinir skulu dæma um það sem sagt er.

30Fái einhver annar sem þar situr opinberun, þá þagni hinn fyrri.

31Því að allir getið þið flutt boðskap Guðs, hver á eftir öðrum, til þess að allir hljóti fræðslu og uppörvun.

32Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir

33því að Guð er Guð friðar, ekki truflunar.

Eins og siður er í öllum söfnuðum hinna heilögu

34skulu konur þegja á safnaðarsamkomum því að þeim er ekki leyft að tala heldur skulu þær hlýða eins og líka lögmálið býður.

35En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Konum sæmir ekki að tala á safnaðarsamkomu.

36Eða er Guðs orð frá ykkur komið? Eða er það komið til ykkar einna?

37Ef nokkur þykist vera spámaður eða gæddur gáfum andans, hann skynji að það sem ég skrifa ykkur er boðorð Drottins.

38Vilji einhver ekki við það kannast verður ekki við hann kannast.

39Sækist þess vegna, systkin, eftir spámannlegri gáfu og bannið engum að tala tungum.

40En allt fari sómasamlega fram og með reglu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help