Jesaja 43 - Biblían (2007)

Endurlausn Ísraels

1En nú segir Drottinn svo,

sá sem skóp þig, Jakob,

og myndaði þig, Ísrael:

Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,

ég kalla á þig með nafni,

þú ert minn.

2Gangir þú gegnum vötnin

er ég með þér,

gegnum vatnsföllin,

þá flæða þau ekki yfir þig.

Gangir þú gegnum eld

skalt þú ekki brenna þig

og loginn mun ekki granda þér.

3Því að ég, Drottinn, er Guð þinn,

ég, Hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn.

Ég læt Egyptaland í lausnargjald fyrir þig,

Kús og Seba í þinn stað,

4þar sem þú ert dýrmætur í augum mínum,

mikils metinn og ég elska þig.

Ég legg menn í sölurnar fyrir þig

og þjóðir fyrir líf þitt.

5Óttast þú ekki

því að ég er með þér.

Ég mun flytja niðja þína úr austri

og safna þér saman úr vestri.

6Ég segi við norðrið: „Slepptu þeim,“

og við suðrið: „Lát þá lausa.

Komdu með syni mína heim úr fjarlægð

og dætur mínar frá endimörkum jarðar,

7sérhvern þann sem við nafn mitt er kenndur,

því að ég hef skapað hann mér til dýrðar,

myndað hann og mótað.“

8Færið fram hina blindu þjóð

sem þó hefur augu

og hina heyrnarlausu menn

sem þó hafa eyru.

9Allar þjóðir skulu safnast í einn hóp

og lýðirnir koma saman.

Hver þeirra gat boðað þetta

og skýrt oss frá því sem varð?

Leiði þeir fram vitni sín

og færi sönnur á mál sitt

svo að þeir sem heyra segi: „Þetta er rétt.“

10Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,

þjónn minn sem ég hef útvalið

svo að þér vitið og trúið mér.

Skiljið að ég er hann.

Enginn guð var myndaður á undan mér

og eftir mig verður enginn til.

11Ég er Drottinn, ég einn,

og enginn frelsari er til nema ég.

12Það var ég sem boðaði, frelsaði og kunngjörði þetta

en enginn framandi guð á meðal yðar.

Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,

að það er ég sem er Guð.

13Héðan í frá er ég einnig hinn sami,

enginn hrifsar neitt úr hendi minni,

ég framkvæmi, hver fær aftrað því?

Vegur um eyðimörkina

14Svo segir Drottinn, lausnari yðar, Hinn heilagi Ísraels:

Yðar vegna sendi ég til Babýlonar,

ríf niður alla slagbranda

en fögnuður Kaldea verður harmakvein.

15Ég, Drottinn, er yðar Heilagi,

skapari Ísraels er konungur yðar.

16Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið

og braut yfir hin ströngu vötn,

17hann sem leiddi út vagna og hesta

ásamt öflugum her

en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur,

þeir kulnuðu út eins og hörkveikur.

18Minnist hvorki hins liðna

né hugleiðið það sem var.

19Nú hef ég nýtt fyrir stafni,

nú þegar vottar fyrir því,

sjáið þér það ekki?

Ég geri veg um eyðimörkina

og fljót í auðninni.

20Dýr merkurinnar munu tigna mig,

sjakalar og strútar,

því að ég læt vatn spretta upp í eyðimörkinni

og fljót í auðninni

til að svala minni útvöldu þjóð.

21Þjóðin, sem ég myndaði handa mér,

mun flytja lofgjörð um mig.

Sekt Ísraels fyrirgefin

22Þú hefur ekki ákallað mig, Jakob,

né þreytt þig mín vegna, Ísrael.

23Þú færðir mér ekki lömb í brennifórnir

og tignaðir mig ekki með sláturfórnum þínum.

Ég hef hvorki íþyngt þér með kornfórnum

né þreytt þig með reykelsisfórnum,

24þú hefur hvorki keypt mér ilmreyr fyrir fé

né satt mig á feiti sláturfórna þinna.

Nei, þú hefur þreytt mig með syndum þínum,

íþyngt mér með sekt þinni.

25Ég afmái afbrot þín

sjálfs mín vegna, ég einn,

og minnist ekki synda þinna.

26Stefndu mér, við skulum eigast lög við,

verðu þig svo að þú getir réttlætt þig.

27Fyrsti forfaðir þinn syndgaði

og talsmenn þínir brutu gegn mér.

28Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja

og ofurseldi Jakob banni og Ísrael háðung.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help