Júdítarbók 15 - Biblían (2007)

Sigur Ísraels

1Þeir sem voru í tjöldunum heyrðu þetta og það sem gerst hafði fyllti þá skelfingu.

2Urðu þeir svo felmtraðir og óttaslegnir að þeir hættu að halda hópinn og tvístruðust í allar áttir, tóku til fótanna og þutu út á alla vegi á sléttunni og í fjöllunum.

3Einnig lögðu þeir sem voru í varðstöðvunum í fjöllunum kringum Betúlúu á flótta. Þá gerðu allir vopnfærir Ísraelsmenn árás á þá.

4Ússía sendi boð um það sem gerst hafði til Betómestaím, Bebaí, Kóbaí og Kóla og um allar byggðir Ísraels. Hann hvatti alla til að ráðast á óvinina og gera út af við þá.

5Um leið og Ísraelsmönnum bárust tíðindin réðust þeir allir sem einn á óvinina og hjuggu þá niður allt þar til þeir voru komnir til Kóba. Einnig komu menn frá Jerúsalem og frá öllu fjalllendinu til liðs við þá er þeir fréttu af því sem gerðist í herbúðum óvina þeirra. Gíleaðbúar og Galíleumenn réðust á óvinina frá hlið og ollu þeim miklu tjóni allt þar til þeir voru komnir fram hjá Damaskus og byggðum hennar.

6Þeir Betúlúubúar sem eftir urðu í borginni réðust á herbúðir Assýríumanna og rændu þær og auðguðust mjög að verðmætum.

7En það sem eftir varð tóku þeir Ísraelsmenn sem sneru aftur frá vígunum. Fengu þorpin og bæirnir í fjalllendinu og á sléttunni einnig mikið herfang enda var af nógu að taka.

Ísraelsmenn fagna sigri

8Jóakim æðsti prestur og öldungaráð Ísraelsmanna í Jerúsalem komu til að sjá það dásemdarverk sem Drottinn hafði unnið fyrir Ísrael og til að hitta Júdít og færa henni heillaóskir.

9Þegar þeir komu til hennar blessuðu þeir hana allir einum rómi og sögðu: „Þú ert vegsemd Jerúsalem, þú ert hin mikla prýði Ísraels, þú ert meginstolt þjóðarinnar!

10Allt þetta hefur þú gert með eigin hendi. Þú hefur gert dásemdarverk fyrir Ísrael og það var Guði þóknanlegt. Blessuð sért þú af almáttugum Drottni að eilífu.“ Og fólkið allt sagði: „Amen.“

11Í þrjátíu daga lét fólkið greipar sópa um herbúðirnar. Júdít var gefið tjald Hólofernesar og allur silfurborðbúnaður hans, rúm, skálar og öll hans áhöld. Hún tók við þessu, lagði á múlasna sinn, lét spenna fyrir vagna sína og hlóð þessu á þá.

12Allar konur í Ísrael komu hlaupandi til að sjá Júdít og þær blessuðu hana og sumar dönsuðu henni til heiðurs. Sjálf tók hún laufstafi sér í hönd og gaf konunum sem með henni voru.

13Bæði hún og hinar konurnar settu upp ólífuviðarsveiga. Júdít dansaði fremst í flokki kvennanna, sem fóru fyrir, en allir karlmenn í Ísrael slógust í hópinn, báru vopn sín með kransa á höfði og sungu sálma.

14En Júdít hóf upp raust sína og söng eftirfarandi lofgjörð fyrir alla í Ísrael og tók allt fólkið undir lofsönginn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help