Hósea 10 - Biblían (2007)

Tákni skurðgoðadýrkunarinnar eytt

1Ísrael er blómlegur vínviður

sem ber ávöxt.

Þegar ávöxtum hans fjölgaði

fjölgaði hann ölturum sínum.

Þegar velmegun jókst í landinu

gerði hann merkisteina sína fegurri.

2Hjarta þeirra er svikult,

nú eru þeir sekir.

Hann mun sjálfur brjóta ölturu þeirra,

eyða merkisteinum þeirra.

3Nú munu þeir segja:

„Vér höfum engan konung

því að vér óttumst ekki Drottin.

Hvað getur konungurinn gert fyrir oss?

4Talað fánýt orð, svarið meinsæri,

gert sáttmála.“

Og rétturinn blómstrar eins og eitruð jurt

í plógfari á akri.

5Íbúar Samaríu óttast um kálfinn í Betaven.

Þjóð hans syrgir hann,

prestar hans gráta dýrð hans

því að hann verður gerður útlægur frá þeim.

6Hann verður fluttur til Assýríu

sem gjöf til stórkonungs.

Efraím uppsker smán,

Ísrael verður sér til skammar

vegna ráða sinna.

7Samaría verður eydd,

konungur hennar verður

sem afskorinn kvistur í vatni.

8Fórnarhæðir illskunnar, synd Ísraels,

verða eyddar,

þyrnar og þistlar

munu vaxa yfir ölturu þeirra.

Menn munu segja við fjöllin:

„Hyljið oss,“

og við hæðirnar:

„Hrynjið yfir oss.“

Endalok Ísraels

9Allt frá dögum Gíbeu

hefur þú syndgað, Ísrael,

þar hafa þeir staðið í sömu sporum.

Mun stríð ekki ná til þeirra í Gíbeu

vegna illskuverkanna?

10Ég er kominn til að aga þá.

Þjóðir munu safnast saman gegn þeim

þegar þeir sæta aga

fyrir báðar syndir sínar.

11Efraím var tamin kvíga,

viljug að þreskja.

Þegar ég gekk hjá

og sá sterklegan háls hennar

spennti ég Efraím fyrir

til að plægja,

Jakob á að herfa.

12Sáið réttlæti

og uppskerið kærleika,

brjótið land til ræktunar.

Nú er tími til að leita svara hjá Drottni

þar til hann kemur

og lætur réttlæti rigna yfir yður.

13En þér hafið gróðursett ranglæti,

uppskorið glæpi,

þér hafið etið ávöxt lyginnar.

Þú treystir þínum eigin leiðum

og fjölda hermanna þinna.

14Þess vegna rís hergnýr gegn þjóð þinni

og allar virkisborgir þínar verða eyddar

eins og Salman eyddi Betarbel

á degi orrustunnar

þegar móðir var kramin ásamt börnum sínum.

15Þannig mun ég fara með yður, Ísraelsmenn,

vegna mikillar vonsku yðar.

Í dögun þagnar konungur Ísraels.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help