Dómarabókin 5 - Biblían (2007)

Lofsöngur Debóru og Baraks

1Á þeim degi sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:

2Lýðnum hlotnaðist frelsi í Ísrael

og fólkið kom af frjálsum vilja,

lofið því Drottin.

3Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar.

Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann,

lofsyngja Drottni, Guði Ísraels.

4Drottinn, þegar þú braust út frá Seír,

þegar þú brunaðir fram frá Edómsvöllum,

skalf jörðin, himinninn nötraði

og skýin létu vatnið streyma.

5Fjöllin bifuðust frammi fyrir Drottni,

sjálft Sínaí,

frammi fyrir Drottni, Guði Ísraels.

6Á dögum Samgars Anatssonar,

á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar

og vegfarendur fóru leynistigu.

7Leiðtogar höfðust ekkert að í Ísrael

uns þú komst fram, Debóra,

uns þú komst fram, móðir í Ísrael.

8Menn kusu sér nýja guði.

Þá var barist við borgarhliðin.

Skjöldur sást hvorki né spjót

meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.

9Hjarta mitt heyrir til leiðtogum Ísraels

sem komu fram af frjálsum vilja meðal fólksins.

Lofið Drottin.

10Þér sem ríðið hvítum ösnum,

þér sem hvílið á ábreiðum

og þér sem farið um veginn, hugsið um það.

11Með meiri háreysti en vatnsberarnir við vatnsþrærnar

skulu menn víðfrægja réttlætisverk Drottins,

réttlætisverk stjórnar hans í Ísrael.

Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.

12Vakna, vakna, Debóra,

vakna, vakna, syngdu söng.

Af stað, Barak,

leið burt bandingja þína, sonur Abínóams.

13Þá fóru ofan þeir sem eftir voru af göfugmennunum,

lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.

14Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn og hrópuðu:

„Vér fylgjum þér, Benjamín, og liði þínu.“

Ofan frá Makír fóru leiðtogar

og frá Sebúlon þeir sem bera stjórnsprotann,

15leiðtogarnir í Íssakar með Debóru,

og Íssakar var með Barak,

hann fór á eftir honum niður í dalinn.

Flokkar Rúbens sýndu mikla hugprýði.

16Hví sast þú milli fjárkvíanna

og hlustaðir á flautuleik smalanna?

Flokkar Rúbens sýndu mikla hugprýði.

17Gíleað hélt kyrru fyrir hinum megin Jórdanar

og hvers vegna dvaldist Dan við skipin?

Asser sat við sjávarströndina

og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.

18Sebúlon er þjóð sem hætti lífi sínu

og eins Naftalí á hæðum landsins.

19Konungar komu og börðust,

þá börðust konungar Kanaans

við Taanak hjá Megiddóvötnum.

Silfur tóku þeir ekkert að herfangi.

20Af himni börðust stjörnurnar,

af brautum sínum börðust þær við Sísera,

21Kísonlækur skolaði þeim burt,

lækurinn forni, lækurinn Kíson.

Gakktu fram, sál mín, kröftuglega.

22Þá glumdu hófar hestanna

af reiðinni, reið kappanna.

23„Bölvið Merós,“ sagði engill Drottins,

já, bölvið íbúum hennar

af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar,

Drottni til hjálpar meðal hetjanna.

24Blessuð framar öllum konum veri Jael,

kona Hebers Keníta,

blessuð framar öllum konum í tjaldi.

25Vatn bað hann um,

mjólk gaf hún,

rétti honum rjóma

í skrautlegri skál.

26Hún rétti út hönd sína eftir tjaldhælnum,

hægri hönd sína eftir hamrinum

og sló Sísera, mölvaði höfuð hans,

hjó í gagnauga hans og klauf inn úr.

27Hann hné niður fyrir fætur henni,

féll út af og lá þar.

Hann hné niður fyrir fætur henni, leið út af

og þar sem hann hné niður

lá hann lífvana.

28Út um gluggann skimar móðir Sísera,

kallar út um grindurnar:

„Hvað dvelur vagn hans?

Hvað tefur ferð hervagna hans?“

29Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara

og hún endurtekur svör þeirra:

30„Sjálfsagt hafa þeir tekið herfang og eru að skipta því,

ein kona eða tvær á mann,

litklæði handa Sísera að herfangi,

glitofin litklæði að herfangi,

litklæði og tvo glitofna dúka um háls sigurvegarans.“

31Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn.

En megi þeir sem þig elska

ljóma sem sólarupprás.

Var nú friður í landi í fjörutíu ár.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help