Amos 9 - Biblían (2007)

Fimmta sýn: Drottinn í musterinu

1Ég sá Drottin standa við altarið og hann sagði:

Slá þú á súlnahöfuðið svo að þröskuldarnir skjálfi

og byggingin hrynji yfir höfuð þeirra allra.

Þá sem eftir verða mun ég fella með sverði.

Enginn þeirra sem flýr skal komast undan

og sá sem sleppur skal ekki bjargast.

2Þótt þeir brjótist niður í undirheima

mun hönd mín sækja þá

og þótt þeir stígi upp í himininn

mun ég steypa þeim þaðan ofan,

3þótt þeir dyljist á tindi Karmelfjalls

mun ég leita þá uppi og grípa þá,

þótt þeir feli sig fyrir mér á hafsbotni

mun ég skipa orminum þar að bíta þá.

4Þótt þeir fari í útlegð,

reknir áfram af fjandmönnum sínum,

mun ég skipa sverðinu að drepa þá þar.

Ég beini sjónum mínum að þeim,

ekki til heilla, heldur til óheilla.

5Drottinn, Guð hersveitanna,

snertir jörðina svo að hún gengur í bylgjum

og allir syrgja sem á henni búa.

Hún hækkar öll eins og fljót

og lækkar síðan aftur eins og fljót Egyptalands.

6Hann reisir hásal sinn á himni,

hefur jörðina sem grunn hvelfingar sinnar.

Hann hrópar á hafið og eys því á yfirborð jarðar.

Drottinn er nafn hans.

Útvalning og dómur

7Eruð þér Ísraelsmenn mér mætari en Kússítar?

spyr Drottinn.

Leiddi ég ekki Ísrael frá Egyptalandi,

Filistea frá Kaftór, Aramea frá Kír?

8Augu Drottins Guðs hvíla á þessu synduga konungsríki:

Ég mun afmá það af yfirborði jarðar

en samt mun ég ekki afmá niðja Jakobs að fullu,

segir Drottinn.

9Nú gef ég sjálfur skipun um að

hrista kyn Ísraels saman við allar aðrar þjóðir

eins og þegar sigti er hrist,

án þess að nokkur steinvala falli til jarðar.

10Allir syndarar þjóðar minnar munu falla fyrir sverði,

allir sem segja:

„Þú munt ekki senda oss ógæfuna,

þú munt ekki steypa henni yfir oss.“

Fyrirheit um endurreisn

11Á þeim degi mun ég endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs.

Ég mun múra upp í sprungurnar

og reisa það sem hrunið hefur.

Ég mun byggja það aftur eins og það var áður

12svo að þeir geti endurheimt það sem eftir er af Edóm

og allar þjóðir aðrar sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir.

13Já, þeir dagar koma, segir Drottinn,

að plógmaðurinn fylgir fast á hæla sláttumannsins

og víntroðslumaðurinn á eftir sáðmanninum.

Þá mun vínberjasafinn flæða um fjöllin

og hæðirnar verða gegnvættar.

14Þá mun ég snúa við högum þjóðar minnar, Ísraels.

Þeir munu endurreisa hinar eyddu borgir og búa í þeim,

þeir munu planta víngarða og drekka vín úr þeim,

gera aldingarða og neyta ávaxta þeirra.

15Ég mun gróðursetja þá í eigin jarðvegi

og þeir skulu aldrei framar verða upprættir

úr gróðurmoldinni sem ég gaf þeim,

segir Drottinn, Guð þinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help