Fyrri kroníkubók 19 - Biblían (2007)

Stríð við Ammóníta og Aramea

1Nokkru síðar bar svo við að Nahas, konungur Ammóníta, dó og sonur hans varð konungur eftir hann.

2Þá sagði Davíð: „Ég ætla að sýna Hanún Nahassyni vináttu eins og faðir hans sýndi mér.“ Davíð sendi því menn til að færa honum samúðarkveðju vegna fráfalls föður hans. Þegar þjónar Davíðs komu til lands Ammóníta til Hanúns til þess að samhryggjast honum

3sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún: „Heldurðu að Davíð hafi það eitt í huga að heiðra minningu föður þíns þegar hann sendir boðbera með samúðarkveðjur? Eru þjónar hans ekki öllu heldur komnir til þín til að afla upplýsinga um landið og njósna um það til að geta eytt það?“

4Hanún lét þá grípa þjóna Davíðs, raka þá og skera föt þeirra til hálfs upp að þjóhnöppum og sendi þá frá sér gangandi.

5Þegar Davíð hafði verið tilkynnt hvernig komið var fyrir mönnunum sendi hann menn til móts við þá. Þar sem mennirnir höfðu verið niðurlægðir á svívirðilegan hátt lét konungur skila þessu til þeirra: „Verið um kyrrt í Jeríkó þar til skegg ykkar er sprottið aftur. Þá skuluð þið koma heim.“

6Ammónítum varð nú ljóst að þeir höfðu gert Davíð að hatursmanni sínum. Þá sendi Hanún ásamt Ammónítum þúsund talentur silfurs til þess að leigja stríðsvagna og vagnliða hjá Arameum handan við Efrat og Arameum í Maaka og Sóba.

7Þeir leigðu þrjátíu og tvö þúsund stríðsvagna og konunginn í Maaka ásamt her hans. Þeir komu og settu upp herbúðir framan við Medeba. Ammónítarnir söfnuðust einnig saman frá borgum sínum og komu til orrustunnar.

8Þegar Davíð frétti þetta sendi hann Jóab af stað ásamt öllum hernum, öllum vopnfærum mönnum.

9Þá héldu Ammónítar út úr borginni og fylktu sér til orrustu fyrir framan borgarhliðið en konungarnir, sem höfðu komið, stóðu einir sér úti á völlunum.

10Þegar Jóab varð ljóst að árásarlið ógnaði honum í bak og fyrir valdi hann menn úr úrvalsliði Ísraels og fylkti þeim gegn Arameum.

11Það sem eftir var af hernum setti hann undir stjórn Abísaí, bróður síns, sem fylkti honum gegn Ammónítum.

12Þá sagði Jóab: „Ef Aramear reynast öflugri en ég verðurðu að koma mér til hjálpar. En ef Ammónítar reynast þér yfirsterkari kem ég þér til hjálpar.

13Sýndu nú hugrekki. Við skulum berjast fyrir þjóð okkar og borgir Guðs okkar en Drottinn gerir það sem honum þóknast.“

14Jóab og lið hans réðst nú til atlögu gegn Arameum en þeir flýðu undan honum.

15Þegar Ammónítar sáu að Aramear voru flúnir lögðu þeir einnig á flótta undan Abísaí, bróður Jóabs, og tókst að komast inn í borgina. Því næst sneri Jóab heim til Jerúsalem.

16Þegar Arameum varð ljóst að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísraelsmönnum sendu þeir menn til að kalla til herþjónustu Arameana sem bjuggu handan við Efratfljót. Sófak, hershöfðingi Hadadesers, var foringi þeirra.

17Jafnskjótt og Davíð var sagt þetta safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan, hélt á móti þeim og fylkti liði gegn þeim. Þar fylktu Aramear liði gegn Davíð og réðust til atlögu við hann.

18En Aramear urðu að flýja undan Ísraelsmönnum. Davíð eyddi sjö þúsund stríðsvögnum Aramea og felldi fjörutíu þúsund fótgönguliða. Hann felldi einnig Sófak, hershöfðingja þeirra.

19Þegar mönnum Hadadesers var orðið ljóst að þeir höfðu verið ofurliði bornir af Ísraelsmönnum sömdu þeir frið við Davíð og gengu honum á hönd. Þaðan í frá þorðu Aramear ekki að hjálpa Ammónítum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help