1Því næst sóttu allir Júdamenn Ússía þegar hann var sextán ára og gerðu hann að konungi eftir Amasía, föður sinn.
2Hann víggirti borgina Elót sem hann hafði lagt aftur undir Júda. Þá hafði konungurinn verið lagður til hvíldar hjá feðrum sínum.
3Ússía var sextán ára þegar hann varð konungur og ríkti fimmtíu og tvö ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.
4Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins alveg eins og Amasía faðir hans.
5Hann leitaði Guðs á meðan Sakaría lifði, sem skýrði það sem Guð opinberaði. Á meðan hann leitaði Drottins veitti Guð honum velgengni.
6Ússía hélt í hernað gegn Filisteum, reif niður múra borganna Gat, Jabne og Asdód og reisti borgir í grennd við Asdód og í landi Filistea.
7Guð studdi hann gegn Filisteum og Aröbunum, sem bjuggu í Gúr Baal, og gegn Meúnítum.
8Ammónítar urðu að greiða Ússía skatt. Frægð hans barst allt til Egyptalands því að hann varð sífellt voldugri.
9Ússía lét reisa turna í Jerúsalem við hornhliðið, dalshliðið og hliðið við krókinn í Jerúsalem og víggirti þau.
10Hann lét einnig reisa virkisturna í eyðimörkinni og grafa marga brunna því að hann átti mikinn fénað, bæði á láglendinu og á sléttunni. Í fjöllunum og á Karmel hafði hann akuryrkjumenn og vínbændur því að hann hafði mætur á landbúnaði.
11Ússía hafði her sem búinn var til orrustu. Þegar hann hélt í hernað var honum skipt í flokka. Fjöldinn í hverjum þeirra hafði verið ákveðinn þegar flokkarnir voru kannaðir af Jeíel skrifara og Maaseja undir stjórn Hananja sem var hirðmaður konungs.
12Alls voru hinir hraustu hermenn, sem voru ættarhöfðingjar, tvö þúsund og sex hundruð talsins.
13Undir stjórn þeirra var vígbúinn her sem taldi þrjú hundruð og sjö þúsund og fimm hundruð. Þeir gegndu herþjónustu af hreysti og studdu konunginn gegn fjandmönnum.
14Ússía sá öllum þessum her fyrir skjöldum, spjótum, hjálmum, pönsurum og bogum ásamt slöngvusteinum.
15Hann lét gera þrauthugsaðar vígvélar í Jerúsalem. Var þeim komið fyrir uppi á turnunum og á hornum múrsins. Með þeim mátti skjóta örvum og varpa stórum steinum. Frægð hans barst til fjarlægra landa af því að honum var hjálpað til valda með undursamlegum hætti.
16Þegar Ússía var orðinn mjög voldugur varð hann svo hrokafullur að hann vann óhæfuverk og braut af sér gegn Drottni, Guði sínum. Þegar hann gekk inn í musteri Drottins og brenndi reykelsi á reykelsisaltarinu
17kom Asarja prestur á eftir honum og með honum áttatíu prestar Drottins, kjarkmiklir menn.
18Þeir tóku sér stöðu gegnt Ússía konungi og sögðu við hann: „Þér er ekki ætlað, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni heldur prestunum, niðjum Arons. Þeir eru vígðir til þess. Farðu út úr helgidóminum því að þú hefur brotið af þér. Þetta verður þér ekki til sæmdar fyrir Drottni Guði.“
19Þá reiddist Ússía en hann hélt á reykelsiskeri, reiðubúinn að færa reykelsisfórn. Þegar hann reiddist prestunum braust holdsveiki út á enni hans, frammi fyrir prestunum, við reykelsisaltarið í húsi Drottins.
20Þegar Asarja yfirprestur og hinir prestarnir sneru sér að honum sáu þeir útbrotin á enni hans. Þeir ráku hann því þegar í stað þaðan og hann flýtti sér út því að Drottinn hafði slegið hann.
Ússía deyr21Ússía konungur var holdsveikur allt til dauðadags. Hann bjó í sérstöku húsi vegna þess að hann var holdsveikur og því útilokaður frá húsi Drottins. Jótam, sonur hans, var settur yfir hirðina og ríkti yfir landsbúum.
22Aðra hluta sögu Ússía, frá upphafi til enda, hefur Jesaja spámaður Amotsson skráð.
23Ússía var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim úti á sléttunni hjá gröfum konunganna af því að sagt var: „Hann var holdsveikur.“ Jótam, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.