Orðskviðirnir 1 - Biblían (2007)

Spekin lofuð

1Orðskviðir Salómons Davíðssonar, konungs í Ísrael,

2til þess að menn nemi visku og leiðsögn

og læri að meta orð skynseminnar,

3til þess að menn hljóti viturlega leiðsögn,

réttsýni, sanngirni og heiðarleika,

4til þess að þeir verði óreyndum til ráðgjafar

og veiti unglingum þekkingu og forsjálni,

5hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn,

og hinn hyggni þiggur hollráð,

6til þess að menn skilji orðskviði og líkingar,

orð spekinganna og gátur þeirra.

Varastu slæman félagsskap

7Að óttast Drottin er upphaf þekkingar,

afglöpum einum er í nöp við visku og tilsögn.

8Hlýddu, sonur minn, á áminningar föður þíns

og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar,

9þær eru yndislegur sveigur á höfði þér

og men um háls þinn.

10Sonur minn, þegar skálkar ginna þig,

gegndu þeim þá ekki.

11Þegar þeir segja: „Kom með oss.

Leggjumst í launsátur til manndrápa,

sitjum án tilefnis um saklausa menn,

12gleypum þá lifandi eins og hel,

með húð og hári eins og þá sem eru horfnir til dánarheima.

13Alls kyns dýrgripi eignumst vér

og fyllum hús vor ránsfeng.

14Þú skalt taka jafnan hlut með oss,

einn sjóð skulum vér allir hafa.“

15Sonur minn, gakktu ekki á vegi þeirra,

haltu fæti þínum frá slóð þeirra.

16Fætur þeirra eru skjótir til ills

og fljótir eru þeir til að úthella blóði.

17Til einskis þenja menn út netið

í augsýn allra fleygra fugla,

18slíkir menn sitja um eigið líf

og liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.

19Þannig fer öllum þeim sem fíknir eru í rangfenginn gróða:

fíknin verður þeim að falli.

Spekin prédikar sinnaskipti

20Spekin kallar hátt á strætunum

og lætur rödd sína gjalla á torgunum.

21Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum,

við borgarhliðin hefur hún upp rödd sína:

22Hve lengi ætlið þér, fávísu menn, að elska fávísina

og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði

og heimskingjar að amast við þekkingu?

23Látið skipast við umvöndun mína,

ég læt anda minn streyma yfir yður

og kunngjöri yður orð mín.

24En þér færðust undan þegar ég kallaði

og enginn gaf því gaum þótt ég rétti út höndina,

25heldur létuð þér öll mín ráð sem vind um eyru þjóta

og skeyttuð ekki um aðfinnslur mínar

26og því mun ég hlæja að ógæfu yðar

og hæða yður þegar ógæfan dynur yfir yður,

27þegar skelfingin hvolfist yfir yður eins og þrumuveður

og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur,

þegar neyð og angist dynja yfir yður.

28Þá munu þeir kalla á mig en ég mun ekki svara,

þeir munu leita mín en ekki finna mig.

29Þeir hötuðust við þekkingu

og létu hjá líða að óttast Drottin,

30þeir sinntu ekki ráðum mínum

og smáðu alla umvöndun mína

31og því skulu þeir fá að neyta ávaxta breytni sinnar

og mettast af eigin vélræði.

32Því að fráhvarf fávísra drepur þá

og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.

33En sá sem hlýðir á mig mun búa óhultur og öruggur

og engri ógæfu kvíða.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help