1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni þegar Jójakím Jósíason var konungur í Júda:
2Farðu í hús Rekabítanna, talaðu við þá og farðu með þá í hús Drottins, í eitthvert herbergið, og gefðu þeim vín að drekka.
3Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, bræður hans og alla syni og allan flokk Rekabíta.
4Ég fór með þá í hús Drottins, í herbergi sona Hanans, sonar guðsmannsins Jigdalja, en það er við hliðina á herbergi höfðingjanna sem er yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar.
5Því næst bar ég skálar fullar af víni og bikara fyrir mennina úr flokki Rekabíta og sagði við þá: „Drekkið nú dálítið vín.“
6Þeir svöruðu: „Vér drekkum aldrei vín því að Jónadab Rekabsson, ættfaðir vor, skipaði svo fyrir: Þér megið aldrei drekka vín, hvorki þér sjálfir né afkomendur yðar.
7Þér megið hvorki reisa hús né sá sæði og hvorki gróðursetja né eiga víngarða. Þér skuluð búa í tjöldum alla ævi svo að þér lifið lengi í landinu sem þér dveljið í sem aðkomumenn.
8Vér höfum hlýtt öllum fyrirmælum Jónadabs Rekabssonar, ættföður vors, sem hann setti oss. Því drekkum vér ekki vín svo lengi sem vér lifum, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir né dætur.
9Vér reisum ekki hús til að búa í, vér eigum hvorki víngarð, akur né sáðkorn,
10heldur búum vér í tjöldum. Vér fylgjum í öllu því sem Jónadab, ættfaðir vor, gaf oss fyrirmæli um.
11En þegar Nebúkadresar konungur í Babýlon gerði innrás í landið sögðum vér: Komið, vér skulum fara til Jerúsalem undan her Kaldea og Aramea. Þess vegna búum vér í Jerúsalem.“
12Þá kom orð Drottins til Jeremía:
13Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Farðu og segðu við íbúana í Jerúsalem og Júda: Viljið þér ekki hlýða á orð mín og láta yður segjast? segir Drottinn.
14Boð Jónadabs Rekabssonar hafa verið haldin í heiðri. Hann skyldaði niðja sína til að drekka ekki vín og þeir hafa ekki drukkið það hingað til. Þeir hafa hlýtt boði ættföður síns en ég hef talað til yðar seint og snemma en þér hafið ekki hlýtt mér.
15Ég hef hvað eftir annað sent yður þjóna mína, spámennina, til að boða: Snúið yður, hver af sínum vonda vegi, og bætið breytni yðar. Eltið ekki aðra guði til að þjóna þeim. Þá munuð þér búa áfram í landinu sem ég gaf feðrum yðar. En þér lögðuð ekki við hlustir og hlýdduð mér ekki.
16Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið í heiðri fyrirmæli ættföður síns, sem hann gaf þeim, en þetta fólk hlustar ekki á mig.
17Þess vegna segir Drottinn, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: Ég sendi yfir Júda og alla Jerúsalembúa allt það böl sem ég hef hótað. Þeir hlustuðu ekki þegar ég talaði til þeirra og svöruðu ekki þótt ég hrópaði til þeirra.
18En Jeremía sagði við flokk Rekabíta: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þér hafið hlýtt fyrirmælum Jónadabs, ættföður yðar, virt öll boð hans og framfylgt öllu því sem hann setti yður.
19Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Aldrei skal skorta afkomanda af ætt Jónadabs Rekabssonar til að þjóna fyrir augliti mínu.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.