Jeremía 38 - Biblían (2007)

Jeremía bjargað úr dýflissu

1Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason heyrðu boðskapinn sem Jeremía hafði flutt öllu fólkinu þegar hann sagði:

2„Svo segir Drottinn: Sá sem verður um kyrrt í þessari borg mun falla fyrir sverði, af hungri eða drepsótt. Sá sem yfirgefur hana og fer til Kaldea heldur lífi. Líf hans verður herfang hans og hann heldur lífi.

3Svo segir Drottinn: Þessi borg verður vissulega seld her Babýloníukonungs í hendur og hann mun taka hana.“

4Þá sögðu höfðingjarnir við konung: „Það verður að taka þennan mann af lífi. Hann dregur úr hugrekki þeirra hermanna sem eftir eru í borginni og hugrekki alls fólksins með því að flytja þennan boðskap. Því að þessi maður stuðlar ekki að velfarnaði þessa fólks heldur ófarnaði.“

5Sedekía konungur svaraði: „Hann er á yðar valdi því að konungurinn getur ekki staðið gegn yður.“

6Þá gripu þeir Jeremía og settu hann í gryfju Malkía, sonar konungs, sem er í forgarði varðliðsins. Þeir létu Jeremía síga niður í reipi. Ekkert vatn var í gryfjunni, aðeins leðja, og sökk Jeremía ofan í leðjuna.

7Ebed Melek frá Kús var geldingur sem þjónaði í konungshöllinni. Hann heyrði að Jeremía hefði verið varpað í gryfjuna. Konungur sat þá í Benjamínshliði

8en Ebed Melek kom frá höllinni og sagði við konung:

9„Herra minn og konungur. Þessir menn hafa unnið níðingsverk með öllu því sem þeir hafa gert Jeremía spámanni. Þeir köstuðu honum í gryfjuna og þar mun hann deyja úr hungri því að brauð er ekki lengur til í borginni.“

10Konungur gaf þá Ebed Melek frá Kús þessi fyrirmæli: „Taktu með þér þrjá menn héðan og dragðu Jeremía spámann upp úr gryfjunni áður en hann lætur lífið.“

11Ebed Melek tók þá mennina með sér og hélt til konungshallarinnar og í klæðageymsluna. Þangað sótti hann rifna og slitna fataræfla og lét síga í reipum niður í gryfjuna til Jeremía.

12Ebed Melek frá Kús sagði við Jeremía: „Settu larfana í handarkrikana undir reipin.“ Jeremía gerði það

13og síðan drógu þeir hann upp með reipum. Þegar þeir höfðu dregið hann upp dvaldist Jeremía í forgarði varðliðsins.

Síðasta samtal spámannsins og Sedekía

14Sedekía konungur sendi mann eftir Jeremía spámanni að þriðja innganginum í hús Drottins. Konungur sagði við Jeremía: „Ég ætla að spyrja þig nokkurs. Leyndu mig engu.“

15Jeremía svaraði Sedekía: „Ef ég svara þér læturðu áreiðanlega taka mig af lífi og ef ég gef þér ráð hlustarðu ekki á mig.“

16Því næst vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem gaf oss lífið, mun ég hvorki láta taka þig af lífi né fá þig þeim mönnum í hendur sem sækjast eftir lífi þínu.“

17Þá sagði Jeremía við Sedekía: „Svo segir Drottinn, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: Ef þú gengur út til herforingja konungsins í Babýlon heldurðu lífi, þessi borg verður ekki brennd og munt þú og fjölskylda þín lífi halda.

18En gangir þú ekki út til herforingja konungsins í Babýlon verður þessi borg seld Kaldeum í hendur. Þeir munu eyða hana í eldi og sjálfur muntu ekki ganga þeim úr greipum.“

19Sedekía konungur svaraði Jeremía: „Ég óttast Júdamennina sem gerst hafa liðhlaupar og farið til Kaldea, að Kaldear selji mig þeim í hendur og þeir leiki mig grátt.“

20Jeremía sagði: „Þú verður ekki framseldur. Hlýddu á orð Drottins, sem ég flyt þér, svo að þér vegni vel og þú haldir lífi.

21En viljir þú ekki ganga út til þeirra hefur Drottinn birt mér þetta:

22Ég sá að allar konurnar, sem voru eftir í húsi Júdakonungs, voru leiddar út til herforingja konungsins í Babýlon. Þær sögðu:

Góðvinir þínir hafa blekkt þig,

þeir hafa orðið þér yfirsterkari.

Þegar fætur þínir sökkva í foraðið

snúa þeir við þér baki.

23Allar konur þínar og börn verða leidd út til Kaldea. Sjálfur muntu ekki ganga þeim úr greipum heldur verður þú gripinn og seldur konunginum í Babýlon í hendur og þessi borg verður eydd í eldi.“

24Þá sagði Sedekía við Jeremía: „Enginn má vita neitt um þetta samtal, annars muntu deyja.

25En ef höfðingjarnir frétta að ég hafi talað við þig koma þeir til þín og segja: Skýrðu okkur frá því sem þú sagðir við konung. Leyndu okkur engu, eða við drepum þig. Hvað sagði konungur við þig?

26En þú skalt svara þeim: Ég bað konung um að verða ekki sendur aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar.“

27Allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann. Hann svaraði þeim nákvæmlega eins og konungur hafði fyrir hann lagt. Þeir létu hann þá eiga sig því að enginn hafði heyrt samtalið.

28Jeremía var nú um kyrrt í forgarði varðliðsins, allt til þess dags er Jerúsalem var tekin.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help