Sálmarnir 9 - Biblían (2007)

1Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

2Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta,

kunngjöra öll máttarverk þín.

3Ég vil gleðjast og fagna yfir þér,

lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

4Þegar fjandmenn mínir hörfuðu

hrösuðu þeir og fórust fyrir augliti þínu.

5Þú lést mig ná rétti mínum og dæmdir mér í hag,

settist í hásæti þitt sem réttlátur dómari.

6Þú ógnaðir þjóðum, eyddir óguðlegum,

afmáðir nafn þeirra um aldur og ævi.

7Fjandmanninum er eytt, tortímt að eilífu,

þú hefur brotið borgir, enginn minnist þeirra.

8Drottinn er sestur að völdum að eilífu,

hann hefur reist hásæti sitt til dóms.

9Hann dæmir heiminn með réttvísi,

fellir réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10Drottinn er vörn hinum kúgaða,

vígi á neyðartímum,

11þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér

því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita.

12Lofsyngið Drottni sem býr á Síon,

kunngjörið stórvirki hans á meðal þjóðanna

13því að hann, sem blóðs hefnir, hefur minnst þeirra,

hann gleymir ekki hrópi hinna hrjáðu.

14Vertu mér miskunnsamur, Drottinn.

Sjáðu eymdina sem óvinir mínir valda mér,

þú, sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans

15svo að ég geti rakið öll stórvirki þín,

fagnað yfir hjálp þinni í hliðum dótturinnar Síonar.

16Þjóðir féllu í þá gryfju sem þær grófu,

fótur þeirra flæktist í netinu sem þær lögðu.

17Drottinn gerði sig kunnan, hann setti rétt,

hinn óguðlegi festist í eigin snöru. (Strengjaleikur. Sela)

18Guðlausir hrapa til heljar,

allar þjóðir sem gleyma Guði.

19En hinn snauði er ekki gleymdur að eilífu,

von hinna hrjáðu bregst ekki sífellt.

20Rís upp, Drottinn, lát ekki mennina ná völdum,

lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21Lát ótta yfir þær koma, Drottinn,

gerðu þeim ljóst að þær eru dauðlegar. (Sela)

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help