1Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2„Þegar bólga, útbrot eða hvítur blettur myndast á hörundi einhvers og verður að holdsveikiskellu á húð hans skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans.
3Presturinn skal þá skoða skelluna á hörundinu. Hafi hárið á skellunni litast hvítt og skellan virðist liggja dýpra en hörundið umhverfis er þetta holdsveiki. Þegar prestur hefur skoðað hann skal hann úrskurða hann óhreinan.
4Virðist hvíti bletturinn á hörundi hans ekki liggja dýpra en hörundið umhverfis og hafi hárið á honum ekki litast hvítt skal presturinn einangra í sjö daga þann sem skelluna hefur.
5Á sjöunda degi skal presturinn skoða hann aftur. Staðfesti hann þá með eigin augum að skellan sé óbreytt og hafi ekki breiðst út um hörundið skal presturinn einangra hann aftur í sjö daga.
6Á sjöunda degi skal presturinn enn skoða hann. Staðfesti hann þá með eigin augum að skellan hafi dofnað og ekki breiðst út um hörundið skal presturinn úrskurða hann hreinan. Þetta eru þá útbrot og hann skal þvo klæði sín og verður hreinn.
7Breiðist útbrotin um hörundið eftir að sá sem skelluna fékk var skoðaður af prestinum til þess að verða úrskurðaður hreinn skal hann enn einu sinni ganga fyrir prestinn.
8Presturinn skal skoða hann. Staðfesti hann þá að útbrotin hafi breiðst út á hörundinu skal presturinn úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveiki.
9Þegar holdsveikiskella myndast á einhverjum skal hann leiddur fyrir prest.
10Presturinn skal skoða skelluna. Staðfesti hann þá að hvít bólga hafi myndast á húðinni, hárið litast hvítt og nýtt hold myndast í bólgunni,
11er þetta gömul holdsveiki í hörundi hans. Presturinn skal úrskurða hann óhreinan en ekki einangra hann því að hann er óhreinn.
12Hafi holdsveikin breiðst hratt út um húðina og hylji alla húðina með skellum frá hvirfli til ilja, að því er presturinn getur séð með eigin augum,
13skal presturinn skoða það. Ef hann staðfestir að holdsveikin hylji allt hörund hans skal hann úrskurða að sá sem skellurnar hefur sé hreinn. Hann hefur allur litast hvítur: hann er hreinn.
14En um leið og nýtt hold sést á honum er hann óhreinn.
15Þegar presturinn hefur rannsakað nýja holdið skal hann úrskurða hann óhreinan. Nýja holdið er óhreint, það er holdsveiki.
16Þegar hins vegar nýja holdið hverfur og húðin verður hvít skal hann ganga fyrir prest.
17Staðfesti hann að skellan hafi litast hvít skal presturinn úrskurða að sá sem skelluna hefur sé hreinn. Hann er hreinn.
18Þegar kýli myndast á hörundi einhvers manns og hjaðnar
19en hvít bólga eða hárauður blettur verður eftir þar sem kýlið var skal prestur skoða hann.
20Presturinn skal skoða hann og staðfesti hann að skellan virðist liggja dýpra en hörundið umhverfis og hárið á henni hafi litast hvítt skal presturinn úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveikiskella sem myndast hefur í kýlinu.
21Skoði presturinn skelluna án þess að hann geti staðfest að á henni sé hvítt hár eða hún sé lægri en hörundið umhverfis skelluna en að hún hafi dofnað skal presturinn einangra hann í sjö daga.
22Ef skellan breiðist út um hörundið skal presturinn úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveikiskella.
23En séu útbrotin óbreytt og breiðast ekki út er þetta ör eftir kýlið. Presturinn skal úrskurða þann hreinan sem skelluna hefur.
24Þegar einhver fær brunasár á húðina og ljósrauður eða hvítur blettur myndast á örinu
25skal prestur skoða það. Ef hann staðfestir að hárið á skellunni hafi litast hvítt eða að hún liggi dýpra en hörundið umhverfis er það holdsveiki sem hefur myndast í brunasárinu. Presturinn skal úrskurða manninn óhreinan. Þetta er holdsveikiskella.
26Skoði presturinn skelluna og staðfesti að hvorki sé í henni hvítt hár né að hún liggi dýpra en hörundið umhverfis en hafi þess í stað dofnað skal presturinn einangra hann í sjö daga.
27Á sjöunda degi skal presturinn skoða hann aftur. Hafi skellan þá breiðst út um húðina skal presturinn úrskurða þann sem skelluna hefur óhreinan. Þetta er holdsveikiskella.
28Sé skellan óbreytt, hafi ekki breiðst út um húðina heldur dofnað er þetta bólgið ör eftir brunasárið. Presturinn skal úrskurða þann sem skelluna fékk hreinan. Þetta er ör eftir brunasár.
29Þegar skella myndast á höfði karls eða konu eða í skeggstæði
30skal prestur skoða skelluna. Staðfesti hann að hún virðist liggja dýpra en hörundið umhverfis og að í henni séu gulleit, visin hár skal presturinn úrskurða þann sem skelluna fékk óhreinan. Þetta eru holdsveikiútbrot, það er holdsveiki á höfði eða í skeggi.
31Þegar presturinn skoðar útbrotin og staðfestir að þau virðist hvorki liggja dýpra en hörundið umhverfis né að svart hár sé sjáanlegt í þeim skal presturinn einangra þann í sjö daga sem útbrotin fékk.
32Á sjöunda degi skal presturinn skoða útbrotin aftur. Sjái hann að skellan hefur hvorki breiðst út né að gulleitt visið hár hafi myndast á henni og að hún virðist ekki liggja dýpra en hörundið umhverfis,
33skal sá sem fékk útbrotin raka sig, þó ekki skelluna. Presturinn skal einangra í sjö daga þann sem fékk útbrotin.
34Á sjöunda degi skal presturinn skoða útbrotin aftur. Staðfesti hann að útbrotin hafi ekki breiðst út um hörundið og þau virðast ekki liggja dýpra en húðin umhverfis skal presturinn úrskurða hann hreinan. Hann skal þvo klæði sín og verður þá hreinn.
35Ef útbrotin breiðast út um hörundið eftir að presturinn hefur úrskurðað manninn hreinan
36skal presturinn skoða hann aftur. Staðfesti hann að útbrotin hafi breiðst út um húðina þarf presturinn ekki að leita að gulleitum hárum. Maðurinn er óhreinn.
37Virðist prestinum útbrotin vera óbreytt og svart hár hefur vaxið á þeim eru útbrotin læknuð. Maðurinn er hreinn og presturinn skal úrskurða hann hreinan.
38Þegar blettir myndast á hörundi karls eða konu, hvítir blettir,
39skal prestur skoða þá. Staðfesti hann að daufir, hvítir blettir séu á hörundinu eru það góðkynja útbrot sem hafa myndast á húðinni. Maðurinn er hreinn.
40Þegar maður missir hárið á hvirflinum fær hann hvirfilsskalla og er hreinn.
41Missi hann hárið við gagnaugun og framan til á höfðinu fær hann ennisskalla. Hann er hreinn.
42Þegar ljósrauð útbrot myndast á skalla manns eða ennisskalla er það holdsveiki sem kemur fram á skalla hans eða ennisskalla.
43Prestur skal skoða þetta. Staðfesti hann að bólgan í útbrotunum á skallanum eða enninu sé ljósrauð og líti út eins og holdsveiki í hörundi
44er hann holdsveikur. Maðurinn er óhreinn. Presturinn skal úrskurða hann ótvírætt óhreinan. Hann hefur holdsveiki á höfðinu.
45Hinn holdsveiki, sá sem sýktur er, skal klæðast rifnum klæðum, hár hans skal vera óhirt og hann skal hylja skegg sitt. Hann skal hrópa: „Óhreinn, óhreinn!“
46Hann er óhreinn allan þann tíma sem hann hefur sjúkdóminn. Hann skal búa einangraður, bústaður hans skal vera utan herbúðanna.
47Þegar holdsveikiskella kemur á föt, hvort sem þau eru úr ull eða líni,
48hvort sem þau eru ofin eða prjónuð úr líni eða ull, eða á leður eða eitthvað sem gert er úr leðri
49og skellan er gulgræn eða rauðleit, hvort sem hún er á leðri, vefnaði, prjónlesi eða einhverju úr leðri, þá er þetta holdsveikiskella og skal sýna hana presti.
50Presturinn skal skoða hana og einangra í sjö daga það sem skellan er á.
51Á sjöunda degi skal hann skoða skelluna aftur. Hafi skellan breiðst út um fatnaðinn, hvort sem hann er ofinn, prjónaður eða úr leðri, til hvers sem leðrið er notað, þá er þetta illkynja holdsveiki. Plaggið er óhreint.
52Presturinn skal brenna plaggið hvort sem það er ofið eða prjónað úr ull eða líni eða úr leðri eða hvað það nú er sem hefur fengið skellu. Þetta er illkynja holdsveiki og skal brennt í eldi.
53Skoði presturinn plaggið og staðfesti að skellan hafi ekki breiðst út um það, hvort sem það er ofið, prjónað, úr leðri eða úr hverju sem það kann að vera,
54þá skal presturinn bjóða að þvo það sem skellan er á. Því næst skal hann einangra það öðru sinni í sjö daga.
55Þegar það hefur verið þvegið skal presturinn skoða það aftur. Staðfesti hann að skellan virðist ekki hafa breyst er plaggið óhreint, jafnvel þótt skellan hafi ekki breiðst út. Það skal brennt í eldi. Þetta er tæring, hvort sem hún er á réttunni eða röngunni.
56Staðfesti presturinn að skellan hafi dofnað eftir þvottinn skal hann rífa úr plagginu það sem skellan er á, hvort sem það er ofið, prjónað eða úr leðri.
57Komi skellan aftur í ljós á sama fatnaði, hvort sem hann er ofinn, prjónaður eða úr leðri, er það nýtt sjúkdómstilfelli. Þú skalt brenna það í eldi sem skellan er á.
58En það plagg, hvort heldur ofið eða prjónað, eða leðurhlutur sem skellan fer af við þvott skal þvegið öðru sinni og er það þá hreint.“
59Þetta eru lög um holdsveikiskellur á plöggum, úr ull eða líni, hvort sem þau eru ofin eða prjónuð, eða skellur á öllu því sem gert er úr leðri. Samkvæmt þeim skal skorið úr um hreinleika eða óhreinleika.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.