Jeremía 51 - Biblían (2007)

Sigur Drottins

1Svo segir Drottinn:

Nú vek ég eyðandi storm gegn Babýlon og Kaldeum,

2ég sendi vinsara til Babýlonar

til að varpa þeim upp svo að hismið fjúki burt.

Þeir eiga að feykja burt ríkinu og eyða landi Babýlonar

þegar þeir setjast um hana úr öllum áttum

á óheilladeginum.

3Sá sem bendir boga verður ekki þróttlaus,

hinn brynjaði mun ekki þreytast.

Þyrmið ekki æskumönnum hennar,

helgið allan her hennar banni.

4Þeir munu liggja vegnir í landi Kaldea,

reknir í gegn á strætum borgarinnar.

5Ísrael og Júda eru eigi ekkjur,

yfirgefnar af Drottni hersveitanna,

þó að land þeirra sé fullt af synd

gegn Hinum heilaga í Ísrael.

6Flýið frá Babýlon. Bjargið lífi yðar, hver um sig,

svo að yður verði ekki tortímt

þegar henni verður refsað

því að tími er kominn fyrir hefnd Drottins.

Nú geldur hann Babýlon eftir verkum hennar.

7Babýlon var gullbikar í hendi Drottins,

sem gerði alla veröldina drukkna.

Þjóðirnar drukku vínið úr honum

og létu sem óðar væru.

8Skyndilega féll Babýlon og brotnaði í smátt.

Kveinið yfir henni.

Sækið smyrsl við sári hennar,

ef til vill er hægt að græða það.

9Vér vildum lækna Babýlon

en hún var ólæknandi.

Yfirgefið hana. Vér höldum hver til síns lands.

Refsidómurinn yfir henni nær til himins,

hann gnæfir upp í skýin.

10Drottinn hefur birt réttlátan málstað vorn.

Komið, vér skulum segja frá því á Síon

sem Drottinn, Guð vor, hefur afrekað.

11Yddið örvarnar, grípið skildina.

Drottinn hefur blásið kjarki í brjóst konunganna í Medíu

því að hann ætlar að leggja Babýlon í rúst.

Það er hefnd Drottins,

hefnd fyrir musteri hans.

12Hefjið gunnfána gegn múrum Babýlonar.

Styrkið varðsveitina.

Komið fyrir framvörðum.

Leggist í launsátur.

Drottinn hefur ákveðið þetta

og stendur við hótun sína

gegn Babýloníumönnum.

13Þú sem býrð við vötnin miklu,

auðug að fjársjóðum,

endadægur þitt er upp runnið,

síðasta alin lífsþráðar þíns af skorin.

14Drottinn hersveitanna hefur svarið við sjálfan sig:

Þó að ég fyllti þig mannmergð eins og engisprettusveim

verður heróp hrópað gegn þér.

15Hann skapaði jörðina með krafti sínum,

grundvallaði heiminn með speki sinni

og þandi út himininn með þekkingu sinni.

16Þegar hann lætur rödd sína þruma

heyrist vatnaniður í himninum,

hann sendir ský upp frá endimörkum jarðar

og lætur eldingar leiftra í regninu,

hann hleypir vindinum út úr geymslum hans.

17Sérhver maður verður undrandi og skilningsvana,

hver gullsmiður skammast sín fyrir guðamyndir sínar

því að myndirnar, sem hann steypir, eru blekking,

í þeim er enginn lífsandi.

18Þær eru aðeins vindgustur, hlægilegar og einskis nýtar.

Þegar tími reikningsskila rennur upp farast þær.

19Hann sem er hlutskipti Jakobs líkist þeim ekki

því að hann hefur skapað allt

og Ísrael er hans eigin ættkvísl.

Drottinn hersveitanna er nafn hans.

Vopn Drottins

20Þú ert kylfa mín,

þú ert vopn mitt.

Með þér mola ég þjóðir,

legg konungsríki í rúst.

21Með þér mola ég hest og riddara,

með þér mola ég vopn og vagnstjóra.

22Með þér mola ég karl og konu,

með þér mola ég öldung og ungling,

með þér mola ég pilt og stúlku.

23Með þér mola ég hirði og hjörð hans,

með þér mola ég bónda og sameyki hans,

með þér mola ég landstjóra og höfðingja.

24Nú endurgeld ég Babýlon

og öllum íbúum Kaldeu frammi fyrir yður

öll þau níðingsverk sem þeir unnu gegn Síon,

segir Drottinn.

25Nú held ég gegn þér,

fjall tortímingarinnar

sem lagðir allan heiminn í eyði,

segir Drottinn.

Ég rétti út hönd mína gegn þér,

ég geri þig að grjóthrúgu

og kasta þér í eldsofninn.

26Til þín verður hvorki sóttur hornsteinn né undirstöðusteinn

því að þú verður auðn um alla framtíð,

segir Drottinn.

Babýlon fellur

27Reisið gunnfána á jörðinni,

þeytið hafurshornið meðal þjóðanna.

Vígið þjóðir til stríðs gegn Babýlon,

kallið saman konungsríki gegn henni,

Ararat, Minní og Askenas.

Skipið foringja gegn henni.

Sendið út stríðshesta líka loðnum engisprettum.

28Vígið þjóðir til stríðs gegn Babýlon,

konunga Medíu, landstjóra hennar og höfðingja,

allt ríki hennar.

29Jörðin nötrar og skelfur

því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon stóðust

með því að hann gerði land Babýlonar

að óbyggðri eyðimörk.

30Kappar Babýlonar hafa hætt að berjast,

þeir híma í varnarvirkjunum,

kraftur þeirra er þorrinn,

þeir eru orðnir sem konur.

Hús Babýlonar eru brunnin,

slagbrandar hliðanna brotnir.

31Hlaupari tekur við af hlaupara,

boðberi af boðbera,

til að tilkynna konunginum í Babýlon

að borg hans sé fallin endanna á milli,

32vöðin yfir fljótið tekin,

bátarnir brenndir,

hermennirnir skelfdir.

33Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

Dóttirin Babýlon líkist þreskivelli á þreskitíð,

innan skamms kemur uppskerutími hennar.

Hefnd Drottins

34Nebúkadresar, konungur í Babýlon,

hefur gleypt mig, etið mig upp.

Hann hefur stjakað mér til hliðar

eins og tæmdu íláti.

Hann hefur rifið mig í sig eins og dreki,

hann fyllti kviðinn með bestu bitunum

og kastaði síðan upp.

35„Sú kúgun og það ofbeldi, sem ég hef þolað,

komi yfir Babýlon,“

skulu íbúarnir í Síon segja;

„komi blóð mitt yfir íbúa Kaldeu,“

skal Jerúsalem segja.

36Þess vegna segir Drottinn:

Ég sæki sjálfur mál þitt og hefni þín.

Ég þurrka upp Babelfljót,

læt lindir þess þorna.

37Babýlon verður að grjóthrúgu,

hún verður bústaður sjakala,

staður sem vekur andstyggð og fyrirlitningu,

þar sem enginn á heima.

38Þeir reka upp öskur eins og ljón,

allir í einu, urra eins og ljónshvolpar.

39Þegar þeir verða gráðugir geri ég þeim veislu,

geri þá drukkna svo að þeir líði út af,

því næst sofna þeir ævarandi svefni

og vakna ekki aftur, segir Drottinn.

40Ég leiði þá til slátrunar eins og lömb,

eins og hrúta og geithafra.

Háðkvæði um Babýlon

41Æ, Sesak var tekin, unnin,

prýði allrar jarðar.

Æ, Babýlon varð til skammar

meðal framandi þjóða.

42Hafið gekk yfir Babýlon,

drynjandi bylgjum þess skolaði yfir hana.

43Borgir hennar urðu auðn,

skrælnað land og eyðimörk,

land þar sem enginn býr

og enginn maður fer um.

Gegn Bel og múrum borgarinnar

44Ég vitja Bels í Babýlon

og ríf bráðina úr gini hans,

þjóðirnar munu ekki streyma til hans framar.

Borgarmúr Babýlonar mun einnig hrynja.

45Þjóð mín, farðu burt úr þessari borg.

Bjargið lífi yðar, hver um sig,

undan bálandi heift Drottins.

46Missið ekki kjarkinn

og hræðist ekki orðróminn

sem berst um landið.

Þetta ár gengur þessi orðrómur, næsta ár annar.

Ofbeldi ríkir í landinu

og valdsmennirnir standa hver gegn öðrum.

Falli Babýlonar fagnað

47Þeir dagar koma

að ég mun vitja hjáguða Babýlonar.

Allt landið verður niðurlægt.

Allir hinir vegnu munu liggja inni í borginni.

48Himinn og jörð og allt sem í þeim er

mun fagna yfir Babýlon

þegar eyðendurnir koma gegn henni úr norðri,

segir Drottinn.

Hefnt fyrir Síon

49Fall Babýlonar er ákveðið

vegna þeirra sem fallnir eru af Ísrael

eins og vegnir menn um allan heim

féllu fyrir Babýlon.

50Þér sem hafið komist undan sverðinu,

haldið af stað, nemið ekki staðar.

Minnist Drottins úr fjarlægð,

hafið Jerúsalem í huga.

51Vér höfum verið niðurlægðir,

höfum þurft að heyra háðsyrði.

Andlit vor roðnuðu af smán

því að framandi menn ruddust inn

í hinar helgu vistarverur í húsi Drottins.

52Sjá, þeir dagar koma,

segir Drottinn,

þegar ég mun vitja hjáguða Babýlonar

og alls staðar í landinu munu særðir menn liggja og stynja.

53Þó að Babýlon gnæfi við himin

og styrki ókleif vígi sín

munu eyðendur frá mér ryðjast inn í hana,

segir Drottinn.

54Heyrið. Neyðaróp berst frá Babýlon,

ógurlegt brak frá landi Kaldea.

55Drottinn leggur Babýlon í eyði,

lætur glymjandann frá henni þagna

þó að öldur hans drynji

eins og mikið vatn og niðurinn belji.

56Já, hann kemur gegn henni,

eyðandinn heldur gegn Babýlon,

kappar hennar verða gripnir,

bogar þeirra brotnir,

því að Drottinn er Guð sem launar,

hann endurgeldur að fullu.

57Ég geri leiðtoga og spekinga Babýlonar drukkna

ásamt landstjórum hennar, herforingjum og stríðshetjum.

Þeir skulu falla í ævarandi svefn

og þeir munu ekki vakna framar, segir konungurinn.

Drottinn hersveitanna er nafn hans.

Um borgarmúrinn

58Svo segir Drottinn hersveitanna:

Víður borgarmúr Babýlonar

verður jafnaður við jörðu.

Há borgarhliðin

verða brennd til ösku.

Þannig vinna þjóðir fyrir gýg,

fólk þrælar sér út fyrir eldsmat.

Bók Jeremía um Babýlon

59Jeremía spámaður gaf Seraja Neríasyni, Mahasejasonar, fyrirmæli þegar Seraja fór með Sedekía, konungi í Júda, til Babýlonar á fjórða stjórnarári hans. Seraja sá um dvalarstaði konungs.

60Jeremía hafði skrifað á bók um allt það böl sem koma átti yfir Babýlon. Það voru þau ummæli um Babýlon sem hér hafa verið skráð.

61Jeremía sagði við Seraja: „Þegar þú kemur til Babýlonar skaltu lesa upp öll þessi orð

62og segja: Drottinn, þú hefur sjálfur hótað þessum stað eyðingu svo að enginn geti búið þar framar, hvorki menn né skepnur. Hann á að verða eyðimörk um alla framtíð.

63Þegar þú hefur lokið lestrinum skaltu binda stein við bókrulluna og fleygja henni út í Efrat

64og segja: Þannig skal Babýlon sökkva og aldrei koma upp aftur. Það er afleiðing ógæfunnar sem ég sendi henni.“

Hér lýkur ræðum Jeremía.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help