Önnur Mósebók 30 - Biblían (2007)

Reykelsisaltarið

1Þú skalt gera altari til að brenna á reykelsi. Þú skalt gera það úr akasíuviði,

2álnarlangt og álnarbreitt. Það á að vera ferhyrnt og tveggja álna hátt. Horn þess skulu vera föst við það.

3Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði plötuna, hliðar þess og horn, og þú skalt einnig gera umgjörð úr gulli allt umhverfis það.

4Þú skalt gera tvo hringi úr gulli og festa þá neðan við umgjörðina á báðum hliðum þess. Þeir eru til að smeygja í þá stöngum til að bera það.

5Þú skalt gera stengurnar úr akasíuviði og leggja þær gulli.

6Þú skalt setja altarið framan við fortjaldið, sem er fyrir örkinni með sáttmálstákninu, framan við lokið sem er yfir sáttmálstákninu þar sem ég mun eiga við þig samfundi.

7Aron á að brenna á því ilmreykelsi. Hann á að brenna það á hverjum morgni þegar hann útbýr lampana.

8Aron á einnig að brenna það um sólsetur þegar hann setur lampana upp. Þetta er síendurtekin reykelsisfórn fyrir augliti Drottins frá kyni til kyns.

9Þið megið hvorki láta framandi reykelsi líða upp af því né brennifórn eða kornfórn og þið megið ekki dreypa á það dreypifórn.

10Einu sinni á ári skal Aron friðþægja fyrir altarishornin með nokkru af friðþægingarblóði syndafórnarinnar. Einu sinni á ári skal hann friðþægja fyrir það kynslóð eftir kynslóð. Það er háheilagt og helgað Drottni.“

Gjald til helgidómsins

11Drottinn ávarpaði Móse og sagði:

12„Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun þeirra skal sérhver greiða lausnargjald til Drottins fyrir líf sitt þegar þeir verða kannaðir svo að ekki komi nein plága yfir þá vegna könnunarinnar.

13Hver sá sem gengur yfir til þeirra sem taldir hafa verið, skal greiða hálfan sikil miðað við þyngd helgidómssikilsins, það er tuttugu gerur í sikli, hálfan sikil til Drottins.

14Hver, tuttugu ára og eldri, sem gengur yfir til þeirra sem taldir hafa verið, skal greiða afgjaldið.

15Ríkur maður skal ekki greiða meira og fátækur ekki minna en hálfan sikil þegar þið friðþægið fyrir líf ykkar til Drottins.

16Þú skalt taka við lausnargjaldinu frá Ísraelsmönnum og nota það til að greiða fyrir þjónustuna í samfundatjaldinu. Það á að minna Ísraelsmenn á frammi fyrir augliti Drottins og friðþægja fyrir líf ykkar.“

Vatnskerið

17Drottinn ávarpaði Móse og sagði:

18„Þú skalt gera ker úr eir til þvottar og stétt úr eir fyrir það. Þú skalt koma því fyrir milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það.

19Aron og synir hans skulu þvo hendur sínar og fætur úr því.

20Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið skulu þeir þvo sér úr vatni svo að þeir deyi ekki. Einnig þegar þeir ganga að altarinu til þess að þjóna, með því að láta eldfórn til Drottins líða upp í reyk,

21þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur svo að þeir deyi ekki. Þetta er ævarandi skylda hans og niðja hans frá kyni til kyns.“

Smurningarolían

22Drottinn ávarpaði Móse og sagði:

23„Taktu þér hinar ágætustu ilmjurtir, fimm hundruð sikla af fljótandi myrru, helmingi minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanel, tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmandi kalmus

24og fimm hundruð sikla miðað við þyngd helgidómssikils af kassía og eina hín af ólífuolíu.

25Úr þessu skaltu gera heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, að hætti smyrslagerðarmanna. Þetta skal verða heilög smurningarolía.

26Með henni skaltu smyrja samfundatjaldið, örk sáttmálstáknsins,

27borðið ásamt öllum áhöldum þess, ljósastikuna ásamt áhöldum hennar, reykelsisaltarið,

28brennifórnaraltarið ásamt öllum áhöldum þess og kerið ásamt stétt þess.

29Þú skalt helga þau svo að þau verði háheilög, sérhver sem snertir þau verður heilagur.

30Þú skalt einnig smyrja Aron og syni hans og vígja þá til að þjóna sem prestar fyrir mig.

31Þú skalt ávarpa Ísraelsmenn og segja: Þetta skal vera mér heilög smurningarolía frá kyni til kyns.

32Henni má ekki dreypa á hörund nokkurs manns og þið megið ekki búa til neitt annað með sömu aðferð, hún er heilög og skal vera ykkur heilög.

33Sérhver, sem gerir sams konar smyrsl og fær það óvígðum manni, skal upprættur úr þjóð sinni.“

Reykelsið

34Drottinn sagði við Móse: „Taktu ilmefni, fljótandi ilmkvoðu, ilmolíu, ilmandi trjákvoðu og hreint reykelsi, jafnmikið af hverju,

35og gerðu úr þessu ilmandi reykelsi að hætti smyrslagerðarmanna, saltað, hreint og heilagt.

36Þú skalt steyta dálítið af því í fínt duft og setja nokkuð af því fyrir framan örkina með sáttmálstákninu í samfundatjaldinu þar sem ég mun eiga við þig samfundi. Það skal vera ykkur háheilagt.

37Reykelsi, sem þú gerir á þennan hátt, megið þið ekki gera handa sjálfum ykkur. Þú skalt telja það helgað Drottni.

38Sérhver maður, sem gerir annað eins til að njóta ilms þess, skal upprættur úr þjóð sinni.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help