Önnur Mósebók 40 - Biblían (2007)

Vígsla helgidómsins

1Drottinn ávarpaði Móse og sagði:

2„Á fyrsta degi fyrsta mánaðarins skaltu reisa tjaldbúðina, samfundatjaldið.

3Þar skaltu koma sáttmálsörkinni fyrir og hylja örkina með fortjaldinu.

4Síðan skaltu koma inn með borðið og raða á það því sem því fylgir. Þá skaltu koma með ljósastikuna og hengja lampana á hana.

5Þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og setja upp forhengið fyrir inngang tjaldbúðarinnar.

6Þú skalt koma brennifórnaraltarinu fyrir framan við innganginn í samfundatjaldið,

7setja kerið á milli samfundatjaldsins og altarisins og hella í það vatni.

8Þú skalt reisa forgarðinn umhverfis og setja forhengið fyrir hlið forgarðsins.

9Þú skalt taka smurningarolíuna og smyrja tjaldbúðina og allt sem í henni er og helga hana ásamt öllum áhöldum svo að hún verði heilög.

10Þú skalt einnig smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess og helga altarið svo að altarið verði háheilagt.

11Þú skalt smyrja kerið ásamt stéttinni og helga það.

12Síðan skaltu láta Aron og syni hans ganga fram að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá með vatni.

13Því næst skaltu skrýða Aron hinum helga skrúða, smyrja hann og helga hann svo að hann geti þjónað mér sem prestur.

14Þá skaltu láta syni hans ganga fram, klæða þá í kyrtla

15og smyrja þá síðan eins og þú smurðir föður þeirra svo að þeir geti þjónað mér sem prestar. Það skal gert svo að smurning þeirra veiti þeim ævarandi prestdóm frá kyni til kyns.“

16Móse gerði í öllu nákvæmlega eins og Drottinn bauð honum.

17Á fyrsta degi fyrsta mánaðarins á öðru árinu var tjaldbúðin reist.

18Móse reisti tjaldbúðina, kom fyrir sökklunum, reisti upp þiljuborðin, kom þverslánum fyrir og reisti súlurnar.

19Hann þandi tjaldið yfir búðina og setti tjaldþakið yfir það eins og Drottinn hafði boðið Móse.

20Síðan tók hann sáttmálstáknið, setti það í örkina, kom stöngunum fyrir á örkinni og lagði lokið á hana.

21Hann fór með örkina inn í tjaldbúðina, hengdi upp fortjaldið svo að það hyldi sáttmálsörkina eins og Drottinn hafði boðið Móse.

22Hann setti borðið inn í samfundatjaldið við norðurhlið tjaldbúðarinnar, framan við fortjaldið,

23og raðaði brauðum á það í röð frammi fyrir augliti Drottins eins og Drottinn hafði boðið Móse.

24Hann setti ljósastikuna inn í samfundatjaldið við suðurhlið tjaldbúðarinnar

25og hengdi upp lampana frammi fyrir augliti Drottins eins og Drottinn hafði boðið Móse.

26Hann setti gullaltarið inn í samfundatjaldið framan við fortjaldið

27og brenndi á því ilmandi reykelsi eins og Drottinn hafði boðið Móse.

28Síðan setti hann upp hengið fyrir inngang tjaldbúðarinnar

29og kom því næst brennifórnaraltarinu fyrir við innganginn í tjaldbúðina, samfundatjaldið, og færði brennifórn og kornfórn eins og Drottinn hafi boðið Móse.

30Hann kom kerinu fyrir milli samfundatjaldsins og altarisins, hellti í það vatni til þvotta

31og þeir Móse og Aron ásamt sonum hans þvoðu sér um hendur og fætur úr því.

32Þegar þeir gengu inn í samfundatjaldið og að altarinu þvoðu þeir sér eins og Drottinn hafði boðið Móse.

33Hann reisti forgarðinn umhverfis tjaldbúðina og altarið og setti upp hengi fyrir hlið forgarðsins. Þannig fullkomnaði Móse verkið.

34Þá huldi skýið samfundatjaldið og dýrð Drottins fyllti tjaldbúðina

35svo að Móse gat ekki komist inn í samfundatjaldið því að skýið lá á því og dýrð Drottins fyllti tjaldbúðina.

36Í hvert sinn sem skýið hóf sig upp frá tjaldbúðinni lögðu Ísraelsmenn af stað á meðan á ferð þeirra stóð.

37Ef skýið hóf sig ekki upp lögðu þeir ekki af stað fyrr en það hófst upp.

38Því að ský Drottins var yfir bústaðnum á daginn en eldur á nóttunni fyrir augum allra Ísraelsmanna á öllu ferðalagi þeirra.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help