Sálmarnir 145 - Biblían (2007)

1Lofsöngur Davíðs.

Ég tigna þig, Guð minn og konungur,

og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

2Ég vegsama þig hvern dag

og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

3Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,

veldi hans er órannsakanlegt.

4Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,

segir frá máttarverkum þínum

5og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:

„Ég vil syngja um dásemdir þínar.“

6Þær tala um mátt ógnarverka þinna:

„Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“

7Þær víðfrægja mikla gæsku þína

og fagna yfir réttlæti þínu.

8Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

9Drottinn er öllum góður

og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.

10Öll verk þín lofa þig, Drottinn,

og dýrkendur þínir vegsama þig.

11Þeir segja frá dýrð ríkis þíns

og tala um mátt þinn

12til að boða mönnum veldi þitt,

hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.

13Konungdæmi þitt varir um allar aldir

og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

14Drottinn styður alla þá sem hníga

og reisir upp alla niðurbeygða.

15Allra augu vona á þig,

þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma,

16lýkur upp hendi þinni

og seður allt sem lifir með blessun.

17Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum

og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

18Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann,

öllum sem ákalla hann í einlægni.

19Hann uppfyllir óskir þeirra sem óttast hann

og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20Drottinn varðveitir þá sem elska hann

en eyðir öllum óguðlegum.

21Munnur minn skal syngja Drottni lof,

allt hold skal lofa hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help