Fyrri kroníkubók 27 - Biblían (2007)

Herforingjar Davíðs

1Þetta er skrá yfir fjölda þeirra Ísraelsmanna, ættarhöfðingja, foringja þúsund og hundrað manna herflokka og alla þá embættismenn sem þjónuðu konunginum í öllu sem snerti flokkana. Þeir komu og fóru mánuð eftir mánuð, alla mánuði ársins. Í hverjum flokki voru 24.000 menn.

2Jasóbeam Sabdíelsson var fyrir fyrsta flokknum í fyrsta mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

3Hann var einn af niðjum Peresar og yfirmaður allra foringja hersins í fyrsta mánuðinum.

4Dódaí, af ætt Ahóhí, var fyrir flokknum í öðrum mánuði. Miklót var honum næstur en í flokki hans voru 24.000 menn.

5Benaja, sonur Jójada æðsta prests, var þriðji hershöfðinginn í þriðja mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

6Benaja þessi var hetja, einn hinna 30, og foringi hinna 30 og flokks síns. Sonur hans var Ammísabad.

7Asael, bróðir Jóabs, var fjórði hershöfðinginn í fjórða mánuðinum og á eftir honum Sebadja, sonur hans. Í flokki hans voru 24.000 menn.

8Samhút liðsforingi, afkomandi Seraks, var sá fimmti í fimmta mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

9Íra Íkkesson frá Tekóa var sá sjötti í sjötta mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

10Heles frá Pelet, afkomandi Efraíms, var sá sjöundi í sjöunda mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

11Sibbekaí frá Húsa, afkomandi Seraks, var sá áttundi í áttunda mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

12Abíeser frá Anatót, afkomandi Benjamíns, var sá níundi í níunda mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

13Maharaí frá Netófa, afkomandi Seraks, var sá tíundi í tíunda mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

14Benaja frá Píraton, afkomandi Efraíms, var sá ellefti í ellefta mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

15Heldaí frá Netófa, afkomandi Otníels, var sá tólfti í tólfta mánuðinum. Í flokki hans voru 24.000 menn.

Höfðingjar ættbálkanna

16Höfðingjar ættbálka Ísraels: Elíeser Síkríson var höfðingi yfir niðjum Rúbens, Sefatja Maakason var yfir niðjum Símeons,

17Hasabja Kemúelsson var yfir Leví og Sadók var yfir Aron.

18Elíhú, einn af bræðrum Davíðs, var yfir Júda, Omrí Mikaelsson var yfir Íssakar,

19Jismaja Óbadíason var yfir Sebúlon, Jerímót Asríelsson var yfir Naftalí,

20Hósea Asasjason var yfir Efraím, Jóel Pedajason var yfir öðrum helmingi ættbálks Manasse

21en Jiddó Sakaríason var yfir hinum helmingi ættbálks Manasse í Gíleað og

22Asarel Jeróhamsson yfir Dan.

Þetta voru höfðingjar ættbálka Ísraels.

23Davíð hafði ekki látið skrá fjölda þeirra sem voru tvítugir og yngri því að Drottinn hafði heitið því að gera Ísrael jafnfjölmennan og stjörnur himins.

24Jóab Serújuson hafði byrjað talninguna en ekki lokið henni því að refsidómur hafði komið yfir Ísrael vegna hennar. Þess vegna var endanleg tala ekki skráð í annála Davíðs konungs.

Umsjónarmenn eigna konungs

25Asmavett Adíelsson var settur yfir birgðageymslur konungs og Jónatan Ússíason yfir birgðageymslurnar úti á landsbyggðinni, í borgum, þorpum og virkjum.

26Esrí Kelúbsson var settur yfir verkamennina sem unnu á ökrunum.

27Símeí frá Rama var settur yfir víngarðana og Sabdí frá Sefan yfir vínbirgðirnar í víngörðunum.

28Baal Hanan frá Geder var settur yfir olíuviðarlundi og mórberjafíkjutré á Sefelasvæðinu. Jóas var settur yfir olíubirgðirnar.

29Sítraí frá Saron hafði umsjón með nautgripum sem gengu í haga á Saronssléttunni og Safat Adlaíson með nautgripum í dölunum.

30Óbíl, afkomandi Ísmaels, hafði umsjón með úlföldum og Jehdeja frá Meronót með ösnunum.

31Jasís, afkomandi Hagar, hafði umsjón með sauðfé og geitum.

Allir þessir menn voru umsjónarmenn með eignum Davíðs konungs.

Nánustu samstarfsmenn Davíðs

32Jónatan, föðurbróðir Davíðs, var ráðgjafi hans. Hann var skynsamur maður og lærður. Jehíel Hakmóníson var með sonum konungs.

33Akítófel var ráðgjafi konungs og Húsaí Arkíti var vinur konungs.

34Jójada Benajason tók við af Akítófel. Abjatar var prestur og Jóab hershöfðingi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help