Orðskviðirnir 10 - Biblían (2007)

Safn spakmæla

1Orðskviðir Salómons:

Vitur sonur gleður föður sinn

en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.

2Rangfenginn auður stoðar ekki

en réttlæti frelsar frá dauða.

3Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur

en kröfum hinna ranglátu hafnar hann.

4Iðjuleysi færir örbirgð

en auðs aflar iðin hönd.

5Hygginn er sá er safnar á sumri

en illa fer þeim sem sefur af sér uppskeruna.

6Blessun hvílir yfir höfði hins réttláta

en lögleysan hylst í munni hins illa.

7Minning hins réttláta verður blessuð

en nafn óguðlegra tærist burt.

8Sá sem er vitur í hjarta þýðist áminningar

en þeim farnast illa sem talar af gáleysi.

9Sá sem fer rétta vegu gengur óhultur

en upp kemst um þann sem þræðir hlykkjóttan veg.

10Sá sem deplar auga veldur sárindum

en sá sem finnur að af hreinskilni stillir til friðar.

11Lífslind er munnur réttláts manns

en lögleysan hylst í munni hins illa.

12Hatur vekur illdeilur

en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.

13Viska er á vörum hyggins manns

en á baki hins óvitra dynur vöndurinn.

14Vitrir menn geyma þekkingu sína

en orð afglapans boða bráða glötun.

15Auður ríks manns er honum öflugt vígi

en fátækt hinna snauðu verður þeim að falli.

16Eljusemi hins réttláta verður til lífs

en gróði hins rangláta til syndar.

17Sá fer leið lífsins sem hlítir leiðsögn

en sá villist af leið sem hafnar umvöndun.

18Sá sem leynir hatri er hræsnari,

sá sem dreifir hviksögum er heimskingi.

19Málæðinu fylgja yfirsjónir

en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.

20Tunga hins réttláta er hreint silfur,

vit hins óguðlega er lítils virði.

21Orð hins réttláta eru margra framfæri

en afglaparnir deyja úr fákænsku.

22Blessun Drottins auðgar

og erfiði mannsins bætir engu við hana.

23Heimskingjanum er ósóminn ánægja

en viskan er hyggnum manni gleði.

24Það sem hinn óguðlegi óttast kemur yfir hann

en réttlátum verður að von sinni.

25Stormur feykir burt hinum rangláta

en hinn réttláti stendur á ævarandi grunni.

26Það sem tönnunum er vínsýra og augunum reykur,

það er letinginn þeim sem fela honum erindi.

27Ótti Drottins lengir lífdagana

en æviár ranglátra verða stytt.

28Eftirvænting réttlátra endar í gleði

en vonir ranglátra rætast ekki.

29Vegur Drottins er athvarf vammlausum

en illvirkjum tortíming.

30Hinum réttláta verður ekki þokað

og hinir óguðlegu munu ekki byggja landið.

31Af munni hins réttláta streymir viska

en lygatungan verður skorin burt.

32Varir hins réttláta vita hvað geðfellt er

en munnur óguðlegra er flærðin ein.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help