1Drottinn sagði við Móse: „Farðu til faraós og segðu við hann: Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér.
2En neitir þú að sleppa henni og haldir henni áfram fastri
3mun hönd Drottins koma yfir búfénað þinn í haganum, yfir hesta, asna, úlfalda, nautgripi og sauðfé, og valda þungri sótt.
4En Drottinn mun greina búfé Ísraels frá búfé Egypta og ekkert mun drepast af því sem Ísraelsmenn eiga.“
5Drottinn ákvað einnig stundina og sagði: „Á morgun gerir Drottinn þetta hér í landinu.“
6Morguninn eftir gerði Drottinn þetta og drapst þá allt búfé Egypta en af búfé Ísraelsmanna drapst ekki nokkur skepna.
7Faraó sendi þá menn og fékk að heyra að ekkert af búfénaði Ísraels hefði drepist. En hjarta faraós var hart og hann leyfði fólkinu ekki að fara.
Sjötta plágan: Kýli8Drottinn sagði við Móse og Aron: „Takið handfylli ykkar af sóti úr bræðsluofni. Móse á að kasta því upp í loftið fyrir augum faraós
9og það verður að ryki yfir öllu Egyptalandi. Það verður að bólgu sem brýst út í kýlum á mönnum og skepnum um allt Egyptaland.“
10Þá tóku þeir sót úr bræðsluofni og gengu fyrir faraó. Móse kastaði því upp í loftið. Þá kom bólga sem braust út í kýlum á mönnum og skepnum.
11Spáprestarnir gátu ekki gengið á fund Móse vegna bólgunnar því að bólgan kom á spáprestana og alla aðra Egypta.
12En Drottinn herti hjarta faraós og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt við Móse.
Sjöunda plágan: Hagl13Drottinn sagði við Móse: „Vertu snemma á fótum á morgun og gakktu fyrir faraó og segðu við hann: Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér.
14Í þetta sinn læt ég allar plágur mínar bitna á þér, þjónum þínum og þjóð svo að þú komist að raun um að enginn er sem ég á allri jörðinni.
15Ég hefði nú þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og þjóð þína með drepsótt svo að þú yrðir afmáður af jörðinni.
16En ég hef látið þig halda lífi aðeins til þess að þú sæir mátt minn og nafn mitt verði boðað um alla jörðina.
17Enn ertu þjóð minni fjötur um fót því að þú sleppir henni ekki.
18En um þetta leyti á morgun sendi ég svo mikið hagl að annað eins hefur ekki orðið í Egyptalandi frá upphafi til þessa dags.
19Sendu nú menn og komdu búfé þínu undan og öllu sem þú átt utan dyra. Allir menn og allar skepnur, sem verða utan dyra og ekki verða teknar í hús, munu deyja þegar haglið dynur á þeim.“
20Sérhver af þjónum faraós, sem óttaðist orð Drottins, bjargaði þrælum sínum og búfé undir þak
21en þeir sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins skildu þræla sína og búfé eftir úti.
22Drottinn sagði við Móse: „Lyftu hendi þinni til himins og þá kemur hagl yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur og yfir allar jurtir í Egyptalandi.“
23Móse lyfti staf sín um til himins. Þá sendi Drottinn þrumur og hagl og eldi laust niður á jörðina. Drottinn sendi hagl yfir Egyptaland.
24Hagl dundi og eldur leiftraði mitt í haglinu sem var svo mikið að annað eins hafði ekki komið í landi Egypta frá upphafi byggðar.
25Um allt Egyptaland sló haglið allt niður sem var utan dyra, bæði menn og skepnur. Haglið lamdi einnig niður allar jurtir á jörðinni og braut öll tré úti á sléttunni.
26En í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn voru, kom ekkert hagl.
27Þá lét faraó kalla Móse og Aron fyrir sig og sagði við þá: „Í þetta skipti hef ég syndgað. Drottinn hefur á réttu að standa en ég og þjóð mín höfum rangt fyrir okkur.
28Biðjið til Drottins. Nú er meira en nóg komið af þrumum og hagli frá Guði. Ég ætla að leyfa ykkur að fara, þið þurfið ekki að vera hér lengur.“
29Móse svaraði honum: „Um leið og ég er kominn út úr borginni hef ég upp hendur mínar til Drottins. Þá munu þrumurnar þagna og ekkert hagl koma framar svo að þú komist að raun um að landið er eign Drottins.
30Samt veit ég að enn óttast þú og þjónar þínir ekki Drottin Guð.“
31Hör og bygg var lamið niður því að byggið bar þegar öx en hörinn stóð í blóma.
32En hveiti og speldi var ekki barið niður því að það er seinsprottið.
33Móse gekk frá faraó og út úr borginni. Hann hóf upp hendur sínar til Drottins; þá þögnuðu þrumurnar, haglinu slotaði og ekki rigndi lengur á jörðina.
34Þegar faraó sá að regni, hagli og þrumum hafði slotað hélt hann áfram að syndga og gerði hjarta sitt og þjóna sinna ósveigjanlegt.
35Hjarta faraós var hart og hann sleppti ekki Ísraelsmönnum eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.