Esterarbók 5 - Biblían (2007)

Ester gengur fyrir konung

1Á þriðja degi klæddist Ester drottningarskrúða sínum og gekk inn í innri hallargarðinn andspænis konungshöllinni sjálfri. Þar sat konungur í hásæti sínu í hallarsalnum gegnt dyrum hallarinnar.

2Þegar konungur sá Ester drottningu standa úti fyrir gast honum vel að henni og rétti gullsprotann, sem hann hafði í hendi sér, í átt til hennar en Ester gekk til hans og snerti oddinn á sprotanum.

3Konungur sagði við hana: „Hvað er að, Ester drottning, hvers óskarðu? Bæðirðu mig um hálft konungsríkið yrði ég jafnvel við þeirri ósk.“

4En Ester sagði: „Þóknist það konungi vil ég biðja hann að koma í dag ásamt Haman til veislu sem ég hef búið honum.“

5Konungur bað menn að sækja Haman þegar í stað svo að þeir gætu þegið boð Esterar. Þeir Haman héldu til veislunnar sem Ester hafði búið þeim

6og eftir að þau voru sest að drykkju sagði konungur við Ester: „Bið mig hvers sem þú óskar og það skal ég veita þér. Biðjir þú mig um hálft konungsríkið skal það verða þitt.“

7Ester svaraði: „Þetta er ósk mín og bón:

8Hafi ég fallið konunginum í geð og þóknist konunginum að verða við ósk minni og bón bið ég hann að koma á morgun ásamt Haman til veislu sem ég ætla að halda þeim. Þá skal ég fara að orðum konungs.“

9Haman gekk út þaðan þennan dag ánægður og í besta skapi. En þá kom hann auga á Mordekaí í hallarhliðinu og þegar hann sá að Mordekaí hvorki stóð upp fyrir honum né sýndi honum virðingu á nokkra lund varð Haman honum afar reiður.

10Þó stillti hann sig og hélt áfram heim á leið. Þegar þangað kom lét hann senda eftir góðvinum sínum og Seres, konu sinni,

11og gortaði við þau af auðæfum sínum, fjölda sona sinna, þeim frama sem hann hafði hlotið af konungi og því hvernig konungur hafði sett hann til æðri metorða en nokkurn annan af höfðingjum sínum og embættismönnum.

12„Já,“ sagði Haman, „Ester drottning bauð engum til veislunnar nema mér og konungi. Og á morgun býður hún mér enn til veislu með konunginum.

13En ekkert af þessu er mér til gleði meðan ég sé Gyðinginn Mordekaí sitja í hallarhliðinu.“

14Þá sögðu þau Seres, kona hans, og allir vinir hans við hann: „Láttu reisa fimmtíu álna háan gálga og talaðu um það við konung í fyrramálið að Mordekaí verði festur á hann. Eftir það geturðu farið glaður til veislunnar með konungi.“ Þetta þótti Haman þjóðráð og lét hann reisa gálgann.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help