Jobsbók 3 - Biblían (2007)

Fyrsti ræðukafliAngurljóð Jobs

1Þá lauk Job upp munni sínum og formælti fæðingardegi sínum.

2Job tók til máls og sagði:

3Farist sá dagur sem ég fæddist á

og nóttin sem sagði: „Sveinbarn er getið.“

4Sá dagur verði að myrkri,

Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum,

engin birta ljómi yfir honum.

5Sorti og myrkur heimti hann til sín,

skýjaþykkni leggist yfir hann,

sólmyrkvi skelfi hann.

6Niðamyrkur hremmi þá nótt,

hún teljist ekki með dögum ársins,

hún reiknist ekki til neins mánaðar.

7Sú nótt verði ófrjó,

engin fagnaðaróp kveði við,

8þeir sem bölva deginum formæli henni,

þeir geta valið Levjatan.

9Stjörnur hennar hefðu betur verið dimmar við birtingu,

engin birta komið þótt hún vænti hennar

og hún hefði ekki litið ljóma morgunroðans

10því að hún lokaði ekki fyrir mér dyrum móðurlífsins

og byrgði ekki þjáninguna fyrir augum mínum.

11Hví dó ég ekki nýkominn úr móðurskauti,

andaðist er ég kom úr móðurlífi?

12Hvers vegna tóku hné á móti mér

og brjóst handa mér að sjúga?

13Nú gæti ég legið og hvílst,

sofið og haft næði

14með konungum og ráðamönnum jarðarinnar,

sem reistu sér hallir úr rústum,

15eða með höfðingjum sem áttu gull,

fylltu hús sín silfri.

16Eða ég væri ekki til frekar en fyrirburi sem leynt er,

börn sem aldrei litu dagsins ljós.

17Þar hætta ranglátir að hamast,

þar hvílast örmagnaðir.

18Bandingjar hvílast saman,

köll varðarins heyra þeir ekki.

19Háir og lágir eru þar jafnir

og þrællinn er laus við húsbónda sinn.

20Hvers vegna gefur hann þjáðum ljós

og bitrum líf,

21þeim sem þrá dauðann án þess hann komi

og grafa ákafar eftir honum en fjársjóðum,

22þeim sem gleðjast yfir steindys

og fagna ef þeir finna gröf,

23manninum sem enga leið finnur

og Guð hefur króað af?

24Þegar ég ætla að matast styn ég,

harmakvein mín streyma sem vatn.

25Það sem ég óttaðist kom yfir mig,

það sem ég skelfdist henti mig.

26Ég naut hvorki næðis né friðar,

ég hvíldist ekki en mæddist á ný.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help