Ljóðaljóðin 8 - Biblían (2007)

1Ó, að þú værir bróðir minn

sem móðir mín hefði haft á brjósti,

hitti ég þig á strætinu mundi ég kyssa þig

og enginn fyrirliti mig.

2Þá tæki ég þig við hönd mér

og leiddi þig heim til móður minnar,

í hús hennar sem ól mig;

þar gæfi ég þér af kryddvíni mínu,

safa granateplanna.

3Vinstri hönd þín sé undir höfði mér,

hin hægri faðmi mig.

4Ég særi yður, Jerúsalemdætur,

truflið ekki, vekið ekki ástina,

fyrr en hún sjálf vill.

(Kór)

5Hver er sú sem kemur þarna af berangri

og leiðir elskhuga sinn?

(Hún)

Undir eplatrénu vakti ég þig,

þar varð móðir þín þunguð að þér

og þar fæddi þig sú sem þunguð var.

6Settu mig sem innsigli á hjarta þitt,

eins og innsigli á arm þinn,

því að ástin er sterk eins og dauðinn

og ástríðan vægðarlaus sem hel;

hún er brennandi bál,

skíðlogandi eldur.

7Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina,

stórfljót ekki drekkt henni,

bjóði maður aleigu sína fyrir ástina

uppsker hann aðeins háð.

(Kór)

8Litla systur eigum vér,

henni eru ekki vaxin brjóst.

Hvað eigum vér að gera við systur vora

á festardegi hennar?

9Sé hún múrveggur

reisum vér á honum silfurvirki,

sé hún hurð

þekjum vér hana sedrusviði.

(Hún)

10Ég er múrveggur

og brjóst mín eins og turnar,

í augum hans varð ég

sú sem veitir frið.

(Hann)

11Salómon átti vínekru í Baal Hamon.

Hann setti verði um vínekruna,

fyrir ávexti hennar skyldi hver maður

greiða þúsund sikla silfurs.

12Ég á eigin vínekru.

Eigðu þúsundin, Salómon,

og tvö hundruð þeir sem ávaxtarins gæta.

13Þú sem dvelst í görðunum,

vinirnir hlusta eftir rödd þinni,

en láttu mig heyra hana.

(Hún)

14Skundaðu, elskhugi minn,

upp til ilmfjallanna

líkur dádýri, líkur hindarkálfi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help