Fimmta Mósebók 18 - Biblían (2007)

Réttindi presta og Levíta

1Enginn Levítaprestur, enginn af ættkvísl Leví, skal hljóta land eða erfðahlut eins og aðrir í Ísrael. Þeir skulu hafa viðurværi af eldfórnum Drottins, af erfðahlut hans.

2Ættbálkur Leví skal ekki fá erfðahlut meðal bræðra sinna. Drottinn er erfðahlutur hans eins og Drottinn hefur heitið honum.

3Þennan rétt skulu prestarnir hafa hjá þjóðinni, af hálfu þeirra sem færa sláturfórn, hvort heldur naut eða lamb: prestinum skal gefa bóginn, báða kjammana og vinstrina.

4Þú skalt gefa prestinum frumgróðann af korni þínu, víni og olíu og fyrstu ullina sem þú tekur af sauðfé þínu.

5Því að Drottinn, Guð þinn, hefur valið ættbálk Leví úr öllum öðrum ættbálkum þínum til þess að hann gegni þjónustu í nafni Drottins alla ævidaga sína.

6Þegar Levíti úr einhverri borg þinni, einhvers staðar í Ísrael, þar sem hann hefur dvalist sem aðkomumaður, vill koma til staðarins sem Drottinn velur er hann frjáls að því svo oft sem hann vill.

7Hann má þjóna þar í nafni Drottins eins og allir aðrir bræður hans, Levítarnir, sem gegna þjónustu frammi fyrir Drottni.

8Þeir skulu fá sama hlut og hinir sér til viðurværis enda þótt þeir hafi þegið fé fyrir föðurleifð sína.

Gegn heiðnum siðum

9Þegar þú kemur inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki temja þér sömu svívirðingar og þjóðirnar þar.

10Á meðal ykkar má enginn finnast sem lætur son sinn eða dóttur ganga gegnum eld, enginn sem leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður,

11enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum.

12Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð. Sakir þessara viðurstyggða rýmdi Drottinn þjóðum landsins úr vegi ykkar.

13Þú skalt vera óskiptur með Drottni, Guði þínum.

14Þessar þjóðir, sem þú hrekur burt, hafa hlýtt skýjaspámönnum og þeim sem lesa úr hlutkesti en Drottinn, Guð þinn, hefur ekki ætlað þér slíkt.

15Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða.

16Hann mun að öllu leyti uppfylla það sem þú baðst Drottin, Guð þinn, um á Hóreb daginn sem þið komuð þar saman og þú sagðir: „Lát mig ekki heyra aftur þrumuraust Drottins, Guðs míns, né líta aftur þennan mikla eld svo að ég deyi ekki.“

17Þá sagði Drottinn við mig: „Það sem þeir segja er rétt.

18Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum.

19Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

20En sá spámaður, sem dirfist að tala það í mínu nafni, sem ég hef ekki falið honum, eða flytur boðskap í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.

21Ef þú hugsar með sjálfum þér: Hvernig getum við þekkt það orð sem Drottinn hefur ekki talað?

22skaltu vita: Þegar spámaður talar í nafni Drottins og það sem hann hefur sagt kemur hvorki fram né rætist, þá eru það orð sem Drottinn hefur ekki talað. Spámaðurinn hefur talað af ofdirfsku sinni, þú þarft ekki að óttast neitt sem hann segir.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help