Óbadía 1 - Biblían (2007)

Eyðing Edómíta

1Vitrun Óbadía.

Tíðindi hafa borist frá Drottni

og boðberi er sendur til þjóðanna:

„Komum nú. Herjum á Edómíta.“

Svo segir Drottinn Guð um Edóm:

2Þig geri ég smæstan meðal þjóða,

þú verður fyrirlitinn mjög.

3Hroki hjarta þíns hefur dregið þig á tálar,

þú sem býrð í klettaskorum,

átt dvalarstað á hæðum uppi

og segir í hjarta þínu:

„Hver getur steypt mér til jarðar?“

4Þótt þú svífir eins hátt og örninn

og gerir þér hreiður meðal stjarnanna

mun ég steypa þér niður, segir Drottinn.

5Komi þjófar að þér,

ræningjar að næturþeli,

þá stela þeir ekki umfram þörf sína.

Komi vínyrkjumenn til þín

munu þeir eftirláta þér eftirtínsluna.

Hve algjör er eyðing þín orðin.

6Hve þaulrannsakaður verður Esaú

og fólgin auðæfi hans leituð uppi.

7Allir bandamenn þínir hrekja þig

allt að landamærunum,

lagsmenn þínir villa um fyrir þér

og bera þig ofurliði

og mötunautar þínir

hafa lagt snörur fyrir þig.

8Á þeim degi, segir Drottinn,

eyði ég hinum vitru í Edóm

og viskunni af fjalli Esaú.

Og hyggindi hans mun þrjóta.

9Kappar þínir, Teman, skulu skelfast.

Á fjalli Esaú mun enginn lifa manndrápin af.

10Sakir ofbeldisverka þinna

gegn Jakob, bróður þínum,

mun smánin hvolfast yfir þig

og þú tortímast að eilífu.

11Þann dag sem þú lést afskiptalaust

að aðkomumenn flyttu burt eigur hans,

þegar útlendingar héldu inn um hlið hans

og vörpuðu hlutkesti um Jerúsalem,

varst þú sem einn af þeim.

12Horfðu ekki meinfýsinn

á örlög bróður þíns

á degi ógæfu hans.

Hlakkaðu ekki

yfir þjóð Júda

á degi tortímingar hennar.

Sparaðu þér stóryrði

á degi angistar hennar.

13Ryðstu ekki inn um hlið þjóðar minnar

á degi glötunar hennar.

Hlakkaðu ekki með hinum yfir óförum hennar

á degi glötunar hennar,

seilstu ekki eftir eigum hennar

á degi glötunar hennar.

14Nem eigi staðar við vegamótin

til að drepa flóttamenn hennar

og framseldu ekki þá er undan komast

á degi neyðarinnar.

15Dagur Drottins

vofir yfir öllum þjóðum.

Eins og þú breyttir við aðra,

þannig verður breytt við þig.

Verk þín munu koma sjálfum þér í koll.

16Eins og þér drukkuð

á helgu fjalli mínu,

þannig munu allar þjóðir ævinlega drekka.

Þær munu drekka og drekka stórum

og verða eins og þær hefðu aldrei verið til.

Sigur Ísraels

17En á Síonarfjalli munu menn komast af

og það skal verða heilagt

og Jakobsniðjar munu endurheimta eigur sínar.

18Ætt Jakobs verður sem eldur

og ætt Jósefs sem bál

en ætt Esaú verður að hálmi.

Þeir munu kveikja í honum og eyða

og enginn mun undan komast af niðjum Esaú

því að svo hefur Drottinn mælt.

19Sunnlendingar munu fá fjall Esaú til eignar

og íbúar vesturhlíðanna Filisteu.

Og þeir munu eignast Efraímsland og Samaríuhérað

en Benjamín Gíleað.

20Brottfluttir hermenn Ísraels

munu taka lönd Kanverja til eignar

allt til Sarefta

og útlagarnir frá Jerúsalem,

sem dveljast í Sefarad,

munu eignast borgir Suðurlandsins.

21Sem bjargvættir munu þeir halda

upp til Síonarfjalls

og dæma þaðan fjall Esaú

og Drottinn hlýtur konungdæmið.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help