1Jeremía lauk nú við að flytja öllu fólkinu þessi orð frá Drottni, Guði, en Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann með þau til þeirra.
2Þá tók Asarja Hósajason til máls og talaði við Jeremía ásamt Jóhanan Kareasyni og öllum hrokagikkjunum. Þeir sögðu við Jeremía: „Það sem þú segir er lygi. Það var ekki Drottinn, Guð vor, sem sendi þig með þessi boð: Farið ekki til Egyptalands til að leita þar hælis.
3Nei, það er Barúk Neríason sem æsir þig upp gegn oss til þess að selja oss Kaldeum á vald svo að þeir geti drepið oss eða flutt oss í útlegð til Babýlonar.“
4Hvorki Jóhanan Kareason, herforingjarnir né allt hitt fólkið hlýddi boði Drottins um að vera um kyrrt í Júda.
5En Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir söfnuðu saman þeim sem eftir voru af Júdamönnum og höfðu snúið heim frá þeim þjóðum sem þeir höfðu verið hraktir til og komið til Júda til að setjast þar að.
6Það voru karlar, konur og börn, einnig konungsdæturnar og allir hinir sem Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, hafði látið vera um kyrrt hjá Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar. Jeremía spámaður og Barúk Neríason voru á meðal þeirra.
7Þeir héldu því næst til Egyptalands af því að þeir hlýddu ekki boði Drottins og fóru til Takpanes.
Nebúkadresari spáð sigri á Egyptum8Orð Drottins kom til Jeremía í Takpanes:
9Taktu þér í hönd nokkra stóra steina og grafðu þá niður í leirinn milli múrsteinanna í stéttinni framan við höll faraós í Takpanes í viðurvist nokkurra Júdamanna
10og segðu við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég sendi eftir þjóni mínum, Nebúkadresari, konungi í Babýlon. Ég mun koma hásæti hans fyrir á þessum steinum sem ég hef grafið niður og hann mun þenja hásætishimin sinn út yfir þá.
11Hann mun koma og sigra Egyptaland: Sá sem dauðanum er ætlaður fer til dauðans, sá sem útlegð er ætlaður fer í útlegð, sá sem sverði er ætlaður fer til sverðsins.
12Hann mun kveikja í húsum guða Egyptalands, brenna guðina til ösku eða flytja þá í útlegð. Hann mun aflúsa Egyptaland, eins og smali sem tínir lýsnar af yfirhöfn sinni, og halda þaðan óáreittur.
13Hann mun brjóta steinsúlurnar í Bet Semes í Egyptalandi og brenna hús guða Egyptalands til ösku.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.