Jobsbók 16 - Biblían (2007)

Svar Jobs

1Job svaraði og sagði:

2Ég hef heyrt margt þessu líkt,

þér eruð þreytandi huggarar, allir sem einn.

3Er þessu orðagjálfri nú lokið

eða hvað egnir þig til svara?

4Ég gæti einnig talað eins og þér

stæðuð þér í mínum sporum,

gæti sett saman ræðu gegn yður

og hrist höfuðið yfir yður.

5Ég gæti stutt yður með munni mínum

og ekki sparað samúð með vörum mínum.

6Þótt ég tali deyfir það ekki kvöl mína,

þótt ég þegi hverfa ekki þjáningar mínar.

7Já, nú hefur hann þreytt mig.

Þú eyddir öllu sem vitnaði gegn mér, þrengdir að mér.

8Hrörnun mín varð vitni, reis gegn mér

og talaði móti mér.

9Heift hans reif mig og ofsótti,

gnísti tönnum gegn mér.

Fjandmenn mínir hvesstu á mig augun,

10glenntu upp ginið á móti mér,

gáfu mér utan undir til háðungar

og flykktust gegn mér.

11Guð ofurseldi mig illmenni

og hratt mér í greipar guðleysingja.

12Ég var áhyggjulaus en hann hristi mig óþyrmilega,

tók í hnakkadrambið á mér og muldi mig.

Hann hafði mig að skotspæni,

13örvar hans dreif að mér úr öllum áttum,

hann klauf nýru mín og eirði engu,

lét gallið úr mér renna á jörðina.

14Hann brýtur í mig skarð eftir skarð,

gerir áhlaup á mig eins og hermaður.

15Ég saumaði húð minni sorgarklæði,

stakk horni mínu ofan í moldina.

16Andlit mitt er þrútið af gráti

og dökkir baugar undir augunum,

17þótt hendur mínar hafi ekki flekkast af ofbeldi

og bæn mín sé hrein.

18Jörð, hyl eigi blóð mitt

og neyðaróp mitt fái engan hvíldarstað.

19En á himnum er vottur minn

og vitni mitt á hæðum.

20Vinir mínir hæða mig,

auga mitt grætur frammi fyrir Guði,

21hann skeri úr deilum milli manns og Guðs

og manna á meðal

22því að fá ár munu líða

uns ég fer þá för sem enginn á afturkvæmt úr.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help