1Job svaraði og sagði:
2Hlýðið á mál mitt með athygli.
Það væri huggun af yðar hálfu.
3Sýnið þolinmæði svo að ég geti talað.
Þegar ég hef talað getið þér hætt mig.
4Beini ég harmatölum mínum til manna?
Hví skyldi ég ekki vera óþolinmóður?
5Lítið á mig og látið yður bregða,
leggið hönd á munn.
6Hugsi ég til þess skelfist ég
og skjálfti fer um mig.
7Hvers vegna lifa óguðlegir,
eldast, eflast og styrkjast?
8Börn þeirra dafna hjá þeim
og niðjar þeirra fyrir augum þeirra.
9Hús þeirra eru óhult og óttalaus,
vöndur Guðs ógnar þeim ekki.
10Naut þeirra kelfir og gagnast,
kýr þeirra ber og lætur ekki kálfi.
11Þeir láta börn sín út eins og sauðahjörð
og börnin dansa,
12þau syngja við undirleik páku og gígju
og fagna við flaututóna.
13Þeir njóta lífsins alla ævi
og fara í friði til undirheima.
14Samt segja þeir við Guð: „Farðu frá oss.
Vegi þína viljum vér ekki þekkja.
15Hvað er Hinn almáttki, að vér skyldum þjóna honum?
Hvað gagnast oss að leita til hans?“
16En gæfan er ekki í hendi þeirra
og ráð óguðlegra eru mér framandi.
17Hversu oft slokknar á lampa óguðlegra
svo að verðskulduð ógæfa hendir þá
og Guð skammtar þeim kvöl í reiði sinni?
18Hversu oft verða þeir þá sem hálmur í vindi
eða fjúkandi hismi í stormi?
19Guð ætti ekki að geyma niðjum neins það böl sem honum ber
heldur gjalda honum sjálfum svo að hann kenni á því,
20sjái ófarnað sinn með eigin augum
og drekki af reiði Hins almáttka.
21Hvað hirðir hann um hús sitt eftir dauðann
þegar tala mánaða hans er fullnuð?
22Hver getur frætt Guð um þetta,
hann sem dæmir í upphæðum?
23Einn deyr í blóma lífsins
áhyggjulaus og ánægður,
24innyfli hans þakin fitu
og beinin full af safaríkum merg.
25En annar deyr bitur í bragði
og smakkaði aldrei nein lífsgæði.
26Þeir hvíla báðir í mold
og maðkar hylja þá.
27Ég þekki hugsanir yðar
og ráðagerðir, að leika mig grátt,
28því að þér spyrjið: „Hvar er hús göfugmennisins,
hvar er tjaldið sem óguðlegir búa í?“
29Hafið þér ekki spurt ferðamenn
því að sönnunum þeirra hafnið þér ekki?
30Á óheilladeginum verður hinum vonda þyrmt,
á reiðideginum verður honum skotið undan.
31Hver leiðir honum breytni hans fyrir sjónir,
hver launar honum verk hans?
32Hann verður borinn til grafar
og verðir settir við gröf hans.
33Moldin í dalnum veitir honum hvíld.
Alþjóð fylgir honum
og aragrúi fer fyrir honum.
34Hvernig ætlið þér að hugga mig með hégóma?
Svör yðar eru aðeins blekkingar.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.