Prédikarinn 3 - Biblían (2007)

Öllu er afmörkuð stund

1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,

að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,

3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,

að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,

4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,

að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,

5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,

að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,

6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,

að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,

7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,

að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,

8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,

stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.

9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?

10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á.

11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.

12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist.

13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

14Ég komst að raun um að allt sem Guð gerir stendur að eilífu, við það er engu að bæta og af því verður ekkert tekið. Guð hefur hagað því svo, til þess að menn virtu hann.

15Það sem er, var fyrir löngu, og það sem verður, hefur verið fyrir löngu og Guð leitar aftur hins liðna.

Vegur allrar veraldar

16Enn sá ég undir sólinni: Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti og þar sem réttlætið átti að vera, þar var réttleysi.

17Ég sagði við sjálfan mig: Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma því að hann hefur afmarkað tíma öllum hlutum og öllum verkum.

18Ég sagði við sjálfan mig: Þetta er gert mannanna vegna til þess að Guð geti reynt þá og þeir sjái að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur.

19Því að örlög manns og örlög skepnu eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn og allt hefur sama andann og yfirburði hefur maðurinn enga fram yfir skepnuna því að allt er hégómi.

20Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið og allt hverfur aftur til moldar.

21Hver veit hvort andi mannanna fer upp á við eða andi skepnunnar niður á við til jarðar?

22Þannig sá ég að ekkert er betra en að maðurinn gleðji sig við verk sín því að það er hlutskipti hans. Hver kemur honum svo langt að hann sjái það sem verður eftir hans dag?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help