Ljóðaljóðin 1 - Biblían (2007)

1Ljóðaljóð Salómons.

(Hún)

2Kysstu mig kossi vara þinna,

atlot þín eru ljúfari en vín.

3Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum

og nafn þitt sem dýrasta olía.

Þess vegna elska stúlkurnar þig.

4Dragðu mig með þér, hlaupum.

Konungurinn leiði mig í herbergi sín.

Gleðjumst og fögnum þér,

lofum ást þína meira en vín;

já, eins og nýtt vín elska þær þig.

5Ég er dökk og yndisleg,

Jerúsalemdætur;

eins og tjöldin hjá Kedar,

eins og tjalddúkarnir hjá Salma.

6Takið ekki til þess að ég er dökkleit,

að sólin hefur brennt mig.

Synir móður minnar reiddust mér

og settu mig til að gæta vínekranna

en vínekru minnar gætti ég ekki.

7Segðu mér, þú sem sál mín elskar,

hvar heldurðu fé þínu til beitar,

hvar hvílist þú um hádegið?

Hví skyldi ég reika um

hjá hjörðum félaga þinna?

(Hann)

8Vitir þú það ekki,

þú fegurst meðal kvenna,

rektu þá slóð hjarðarinnar

og haltu kiðlingum þínum til beitar

hjá tjöldum hirðanna.

9Við hryssu fyrir vagni faraós

líki ég þér, ástin mín.

10Yndislegir eru vangar þínir

undir skrautfléttunum

og háls þinn prýddur gimsteinum.

11Gullfléttur gerum við þér

greyptar á silfurspangir.

(Hún)

12Konungurinn hvílir á hægindi sínu

og ilminn leggur af nardussmyrslum mínum,

13elskhugi minn er myrruknippi

milli brjósta mér,

14hennablóm er elskhugi minn mér,

af vínekrunum í Engedí.

(Hann)

15Hve fögur ertu, ástin mín,

hve fögur,

og augu þín dúfur.

(Hún)

16Hve yndislegur ertu, elskhugi minn,

hve fagur,

og hvíla okkar iðjagræn,

17sedrustrén máttarviðir húss okkar

og kýprustrén þilviðirnir.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help