Amos 4 - Biblían (2007)

Gegn hefðarfrúm í Samaríu

1Heyrið þetta orð, Basanskýr á Samaríufjalli,

þér sem kúgið hina umkomulausu, misþyrmið fátækum

og segið við eiginmenn yðar: „Komið með eitthvað að drekka.“

2Drottinn Guð hefur svarið við heilagleika sinn:

Já, takið eftir. Yfir yður koma þeir dagar

að þér verðið teymdar í burtu með kjötkrókum

og þær sem eftir verða með önglum.

3Þér verðið að fara út um veggskörðin, ein og ein, beint af augum.

Síðan verðið þér reknar í átt til Hermonfjalls,

segir Drottinn.

Gegn fánýtri guðsdýrkun

4Komið til Betel og syndgið.

Komið til Gilgal og syndgið enn meira.

Færið sláturfórnir yðar að morgni

og tíund yðar á þriðja degi.

5Brennið sýrt brauð í þakkarfórn,

boðið til sjálfviljafórna, hrópið hátt.

Þetta ástundið þér með ánægju, Ísraelsmenn,

segir Drottinn Guð.

Óhlýðni Ísraels og dómur

6Ég hélt tönnum yðar hreinum í öllum borgum yðar

og lét brauð skorta í öllum þorpum yðar

en þér sneruð ekki aftur til mín,

segir Drottinn.

7Ég synjaði yður um regn þegar þrír mánuðir voru til uppskeru.

Þá lét ég rigna á eina borg en ekki á aðra,

einn akur var vökvaður regni

en annar, sem ég vökvaði ekki, skrælnaði.

8Fólk eigraði til sömu borgar frá tveimur, þremur öðrum

til að fá vatn að drekka

en fékk ekki nægju sína.

En þér sneruð ekki aftur til mín,

segir Drottinn.

9Ég laust yður með korndrepi og gulnun,

ég lét garða yðar og vínekrur þorna,

engisprettur átu fíkjutré yðar og ólífutré

en þér sneruð ekki aftur til mín,

segir Drottinn.

10Ég sendi drepsótt gegn yður eins og í Egyptalandi,

felldi æskumenn yðar með sverði

og hestar yðar urðu herfang.

Ég lét nályktina í herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar

en þér sneruð ekki aftur til mín,

segir Drottinn.

11Ég kollvarpaði öllu yðar á meðal

eins og ég kollvarpaði Sódómu og Gómorru.

Þá urðuð þér eins og raftur úr eldi dreginn

en þér sneruð ekki aftur til mín,

segir Drottinn.

12Þess vegna mun ég fara svona með þig, Ísrael,

og vegna þess að ég ætla að fara svona með þig

skaltu búa þig undir að mæta Guði þínum, Ísrael.

13Sjá, hann mótar fjöllin, hann skapar vindinn,

hann boðar manninum það sem hann hefur í hyggju.

Hann breytir myrkri í morgunroða

og gengur yfir hæðir jarðarinnar,

Drottinn, Guð hersveitanna, er nafn hans.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help