Jósúabók 9 - Biblían (2007)

Gíbeonítar blekkja Jósúa

1Þegar allir konungarnir vestan við Jórdan fréttu þetta, bæði þeir sem voru í fjalllendinu og þeir á láglendinu og með fram allri strönd hafsins mikla allt að Líbanon, konungar Hetíta, Amoríta, Kanverja, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta,

2gerðu þeir bandalag með sér um að berjast gegn Jósúa og Ísrael.

3Þegar íbúar Gíbeon fréttu hvernig Jósúa hafði farið með Jeríkó og Aí

4ákváðu þeir að beita brögðum. Þeir nestuðu sig, lögðu slitna poka á asna sína og gatslitna, sprungna og bætta vínbelgi.

5Á fótum höfðu þeir lúna og bætta ilskó og klæddust slitnum skikkjum og nesti þeirra var harðir brauðmolar.

6Síðan héldu þeir til Jósúa í búðunum í Gilgal og sögðu við hann og Ísraelsmenn: „Við komum frá fjarlægu landi. Gerið nú sáttmála við okkur.“

7Ísraelsmenn svöruðu Hevítunum: „Ef til vill búið þið hér á meðal okkar. Hvernig getum við þá gert sáttmála við ykkur?“

8Þá sögðu þeir við Jósúa: „Við erum þjónar þínir.“ En Jósúa spurði: „Hverjir eruð þið og hvaðan komið þið?“

9„Við, þjónar þínir,“ svöruðu þeir honum, „komum frá mjög fjarlægu landi vegna nafns Drottins, Guðs þíns, því að við höfum heyrt orðstír hans og um allt sem hann vann í Egyptalandi

10og hvernig hann lék Amorítakonungana tvo handan við Jórdan, þá Síhon, konung í Hesbon, og Óg, konung í Basan í Astarót.

11Þá sögðu öldungar okkar og allir aðrir sem búa í landinu: Takið ykkur nesti til ferðar og farið til fundar við þá og segið: Við erum þjónar þínir.

12Brauðið, sem við erum með, var enn volgt þegar við nestuðum okkur daginn sem við héldum að heiman til fundar við ykkur. En sjáið nú hve hart það er orðið og molnað.

13Og þessir vínbelgir voru einnig nýir þegar við fylltum þá. En lítið nú á. Þeir eru sprungnir. Og yfirhafnir okkar og ilskór eru gatslitnir orðnir eftir þessa löngu ferð.“

14Þá tóku Ísraelsmenn dálítið af nesti þeirra en leituðu ekki úrskurðar Drottins.

15Jósúa veitti þeim síðan grið og gerði við þá sáttmála um að þeir fengju að halda lífi. Leiðtogar safnaðarins unnu þeim einnig eið.

16En þremur dögum eftir að þeir gerðu sáttmála við Gíbeoníta komust Ísraelsmenn að raun um að mennirnir voru nágrannar þeirra og bjuggu á meðal þeirra.

17Ísraelsmenn fóru því af stað og komu á þriðja degi til borga þeirra sem voru: Gíbeon, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím.

18En Ísraelsmenn felldu íbúana ekki því að leiðtogar safnaðar þeirra höfðu svarið þeim eið við Drottin, Guð Ísraels. Allur söfnuðurinn möglaði þess vegna gegn leiðtogunum

19en allir leiðtogarnir svöruðu söfnuðinum og sögðu: „Við höfum svarið þeim eið við Drottin, Guð Ísraels. Þess vegna getum við ekki lagt á þá hendur.

20Við skulum breyta svona við þá: Látum þá lifa svo að reiði komi ekki yfir okkur vegna eiðsins sem við sórum þeim.“

21Því næst sögðu leiðtogarnir við þá: „Þeir skulu lífi halda.“ En síðan urðu Gíbeonítar skógarhöggsmenn og vatnsberar fyrir allan söfnuðinn eins og leiðtogarnir höfðu ákveðið.

22Þá kallaði Jósúa Gíbeoníta til sín og sagði við þá: „Hvers vegna blekktuð þið okkur og sögðust búa lengst frá okkur en búið mitt á meðal okkar?

23Þið eru bölvaðir héðan í frá. Þið skuluð ætíð verða þrælar, skógarhöggsmenn og vatnsberar fyrir hús Guðs míns.“

24Þeir svöruðu Jósúa: „Þjónum þínum var skilmerkilega greint frá því að Drottinn, Guð þinn, hefði lagt fyrir Móse, þjón sinn, að gefa ykkur allt landið og ryðja öllum íbúunum úr vegi. Þess vegna óttuðumst við um líf okkar sakir ykkar og þess vegna gerðum við þetta.

25Nú erum við í hendi þinni: Farðu því með okkur eins og þú telur rétt og réttmætt.“

26Þá gerði hann þetta: Hann bjargaði þeim úr höndum Ísraelsmanna svo að þeir drápu þá ekki.

27Á þeim degi gerði Jósúa þá að skógarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og altari Drottins. Og það hafa þeir verið til þessa dags á staðnum sem Drottinn velur.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help