1Jósúa Núnsson var frækinn í bardaga
og var eftirmaður Móse sem spámaður.
Hann varð það sem nafn hans merkir,
máttugur frelsari hinum útvöldu Drottins,
og hegndi óvinum er þeir gerðu árás
svo að Ísrael mætti ná landi sínu.
2Hvílíkur varð vegur hans er hann hóf upp hendur
og beindi sverði sínu gegn borgunum.
3Hver hafði fyrr staðist sem hann?
Það voru bardagar Drottins sem hann háði.
4Var það ekki sakir hans að sólin stóð kyrr
svo að einn dagur varð sem tveir?
5Hann ákallaði Hinn hæsta, Drottin,
umkringdur óvinum svo að að honum þrengdi.
Hinn máttugi Drottinn heyrði bæn hans
með snarpri hrinu af grjóthörðu hagli.
6Það dundi á þjóð óvinanna,
eyddi þeim sem vörðust í fjallshlíð
svo að heiðingjarnir mættu kynnast vopnabúri hans
og því að stríð þeirra var háð gegn Drottni.
KalebEn Jósúa fylgdi Drottni.
7Meðan Móse lifði vann hann miskunnarverk
ásamt Kaleb Jefúnnesyni.
Þeir risu gegn söfnuðinum öllum
og forðuðu lýðnum með því frá synd,
þögguðu hinn illa kurr fólksins.
8Það voru þeir tveir sem komust af
af sex hundruð þúsund fótgönguliðum.
Þeir leiddu þjóðina til erfðalands síns,
til landsins sem flýtur í mjólk og hunangi.
9Drottinn veitti Kaleb krafta
sem hann fékk haldið til hárrar elli
svo að hann komst inn á hálendi landsins
þar sem niðjar hans hlutu óðal sitt.
10Af þessu máttu allir Ísraelsmenn sjá
hve gott er að fylgja Drottni.
Dómararnir11Eins var um dómarana er allir voru nafntogaðir,
enginn af þeim lét glepjast
og enginn þeirra sneri baki við Drottni.
Blessuð sé minning þeirra.
12Megi nýjar greinar vaxa af beinum þeirra þar sem þau liggja
og nafn þeirra yngjast upp
og hljóta frægð hjá niðjum þeirra.
Samúel13Samúel var elskaður af Drottni,
spámaður Drottins sem stofnaði konungdæmið
og smurði leiðtoga þjóðar hans.
14Hann stýrði söfnuðinum samkvæmt lögmáli Drottins
og Drottinn kom Jakobi til hjálpar.
15Sakir trúfesti sinnar var Samúel viðurkenndur sannur spámaður,
af orðum hans varð ljóst að sýnir hans voru sannar.
16Hann ákallaði hinn máttuga Drottin
þegar óvinir þrengdu hvarvetna að honum
og færði Drottni lamb að fórn.
17Þá lét Drottinn þrumur dynja af himni,
raust hans gall með gný miklum,
18hann yfirbugaði herforingja Týrusmanna
og alla höfðingja Filistea.
19En áður en hann gekk til eilífrar hvíldar
vitnaði hann fyrir Drottni og hans smurða:
„Engin verðmæti, ekki svo mikið sem skó,
hef ég haft af nokkrum manni!“
Enginn gat heldur borið Samúel neitt á brýn.
20Jafnvel eftir að hann lést spáði hann,
kunngjörði konungi afdrif hans.
Hann hóf upp raust sína úr gröf sinni
til að afmá illvirki lýðsins með spámannsorðum.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.