Síraksbók 14 - Biblían (2007)

1Sæll er sá sem hefur taumhald á tungu sinni

og sorg vegna synda nístir ekki.

2Sæll er sá sem þarf ei að álasa sér

og þarf ekki að sjá vonir bregðast.

Um auð

3Eigi hentar auðsæld smásálarlegum,

hvert gagn færir auður nískum manni?

4Sá safnar fyrir aðra sem neitar sér um allt,

ókunnir munu njóta vellystinga af eigum hans.

5Hverjum skyldi sá góður sem sjálfan sig kvelur?

Aldrei færa eignir slíkum gleði.

6Enginn er verr settur en sá sem heldur í við sig,

þetta eru gjöld illsku hans:

7Geri hann vel var það óvart,

illska hans verður að lokum augljós.

8Illur er öfundsjúkur maður,

hann snýr baki við öðrum og skeytir ei um neinn.

9Hann sér aldrei nóg koma í sinn hlut,

sál hans visnar af ranglátri ágirnd.

10Sá níski er spar á brauð

og líður skort við eigið borð.

11Barnið mitt, unn þér alls góðs sem þú getur

og fær Drottni þá fórn sem honum ber.

12Minnstu þess að dauðanum dvelst eigi,

þú veist ekki hvenær þú skalt til heljar halda.

13Ger vel til vinar áður en þú ert allur,

ver honum svo örlátur sem efni þín leyfa.

14Neita þér ekki um glaðan dag,

synja þér eigi um saklausa skemmtun.

15Verður þú ekki að láta öðrum eftir ávöxt erfiðis þíns?

Munu ekki aðrir skipta því með sér sem þú aflaðir?

16Gef og þigg og njóttu lífsins,

í helju er enga gleði að finna.

17Allt hold fyrnist sem fat,

lögmál frá örófi alda býður: „Þú skalt deyja.“

18Eins og blöð á laufguðu tré,

eitt fellur, annað sprettur,

þannig er um kynslóðir manna,

ein deyr, önnur fæðist.

19Öll mannanna verk hrörna, eyðast

og sá sem þau vann hverfur með þeim.

Hamingjan sem spekin veitir

20Sæll er sá sem iðkar speki

og skerpir skilning sinn í umræðum,

21íhugar vegu spekinnar í hjarta sínu

og grundar leyndardóma hennar.

22Fylg þú henni líkt og veiðimaður bráð,

sit fyrir spekinni þar sem hún fer inn.

23Sá sem gægist á glugga hennar,

leggur við hlustir hjá dyrum hennar,

24sest að við hús hennar

og rekur tjaldhæla sína í vegg þess,

25slær tjaldi sínu upp í nánd spekinnar,

þar á hann gott athvarf.

26Börn sín fær hann henni til verndar,

hvílist undir greinum hennar.

27Hjá henni finnur hann skjól fyrir sólarbreyskju

og er umvafinn dýrð hennar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help