Orðskviðirnir 24 - Biblían (2007)

1Öfundaðu ekki vonda menn

og láttu þig ekki langa til að vera með þeim

2því að hjarta þeirra hyggur á ofbeldi

og varir þeirra ráðgera ógæfu.

3Af speki er hús reist

og af skynsemi verður það staðfast,

4fyrir þekkingu fyllast herbergin

alls konar dýrum og fögrum gripum.

5Vitur maður er betri en sterkur

og fróður maður betri en aflmikill,

6holl ráð skalt þú hafa þegar þú heyr stríð

og þar sem ráðgjöf er næg fer allt vel.

7Viskan er afglapanum ofviða,

í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum.

8Þann sem leggur stund á að gera illt

kalla menn varmenni.

9Syndin er fíflslegt fyrirtæki

og spottarinn er mönnum andstyggð.

10Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar

er máttur þinn lítill.

11Bjargaðu þeim sem leiddir eru til lífláts,

þeim sem eru dæmdir til aftöku.

12Ef þú segir: „Vér vissum það ekki,“

mun þá ekki sá sem gaumgæfir hjörtun verða þess var

og sá sem vakir yfir lífi þínu vita það?

Hann mun gjalda hverjum eftir verkum hans.

13Gæddu þér á hunangi, sonur minn, því að það er gott

og hunangsdroparnir eru sætir í munni.

14Vit að þetta er sál þinni speki.

Finnir þú hana áttu þér framtíð

og von þín mun ekki bregðast.

15Rangláti maður, sit ekki um bústað hins réttláta

og spilltu ekki heimkynnum hans

16því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur

en hinir ranglátu hrasa og tortímast.

17Gleðstu ekki yfir falli óvinar þíns

og hjarta þitt fagni ekki þótt hann hrasi

18svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki

og hann snúi reiði sinni frá honum.

19Reiðstu ekki vegna illgjörðamanna,

láttu ekki rangláta angra þig

20því að vondur maður á sér enga framtíð,

á lampa ranglátra slokknar.

21Sonur minn, óttastu Drottin og konunginn,

eigðu ekki samneyti við uppreisnarseggi

22því að ógæfa þeirra ríður yfir þegar minnst varir

og hver getur séð fyrir ófarir þeirra?

23Þessi spakmæli eru líka eftir spekinga:

Hlutdrægni í dómi er röng.

24Þeim sem segir við hinn seka: „Þú hefur rétt fyrir þér,“

honum formæla menn og þjóðir fordæma hann.

25Þeim sem fella réttan úrskurð mun farnast vel,

þeir munu hljóta ríkulega blessun.

26Að veita rétt svör

er eins og að gefa koss.

27Sinntu útiverkunum og ljúktu þeim á akrinum,

síðan getur þú byggt þér hús.

28Vitnaðu ekki gegn náunga þínum án gildrar ástæðu,

eða vilt þú svíkja með orðum þínum?

29Segðu ekki: „Eins og hann gerði mér,

eins ætla ég að gera honum,

ég ætla að veita manninum makleg málagjöld.“

30Ég gekk fram hjá akri letingja nokkurs,

fram hjá víngarði heimsks manns.

31Hann var allur vaxinn þistlum,

hann var alþakinn netlum

og steingarðurinn umhverfis hann var hruninn.

32Ég sá þetta og veitti því athygli,

horfði á það og lét mér það að kenningu verða:

33Sofa ögn enn, blunda ögn enn,

leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast,

34þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi

og skorturinn eins og vopnaður maður.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help