Esekíel 9 - Biblían (2007)

Eyðing borgarinnar

1Því næst hrópaði hann hárri röddu í eyru mér: „Refsing borgarinnar nálgast. Sérhver grípi til eyðingarvopns síns.“

2Þá komu sex menn frá efra hliðinu sem snýr í norður. Hver þeirra hafði sleggju í hendi. Meðal þeirra var maður í línklæðum og hafði hann skriffæri við mjöðm sér. Þeir komu inn og tóku sér stöðu við hliðina á eiraltarinu.

3Dýrð Guðs Ísraels hafði hafið sig frá kerúbunum sem hún hafði verið yfir og fært sig að þröskuldi hússins. Þá hrópaði Drottinn til mannsins, sem bar línklæðin og hafði skriffæri við mjöðm sér,

4og Drottinn sagði við hann: „Gakktu gegnum miðja borgina, þvert í gegnum Jerúsalem, og skrifaðu tákn á enni þeirra manna sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru í borginni.“

5En við hina sagði hann að mér áheyrandi: „Gangið á eftir honum í gegnum borgina og höggvið. Lítið engan vægðarauga og sýnið enga miskunn.

6Þið skuluð deyða og tortíma öldruðum, piltum og stúlkum, börnum og konum en þið megið engan snerta sem táknið er á. Þið skuluð hefjast handa hjá helgidómi mínum.“ Þeir byrjuðu á öldungunum sem voru fyrir framan húsið.

7Síðan sagði hann við þá: „Saurgið húsið og fyllið forgarðana vegnum mönnum. Farið síðan út og höggvið niður fólkið í borginni.“

8Á meðan þeir voru að höggva varð ég eftir, féll fram á ásjónu mína og hrópaði: „Drottinn Guð. Ætlar þú að eyða öllum þeim Ísraelsmönnum sem eftir eru þegar þú úthellir logandi heift þinni yfir Jerúsalem?“

9Hann sagði við mig: „Synd Ísraels og Júda er afar mikil. Landið er orðið fullt af blóðsekt og borgin full af ranglæti því að íbúarnir segja: Drottinn hefur yfirgefið landið svo að Drottinn sér ekkert.

10Ég vil því heldur ekki líta þá vægðarauga eða sýna þeim miskunn: Ég læt breytni þeirra koma þeim í koll.“

11Maðurinn, sem bar línklæðin og hafði skriffæri við lend sér, kom þá og sagði: „Ég hef gert það sem þú bauðst mér.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help