Önnur Mósebók 19 - Biblían (2007)

Sáttmálinn á SínaífjalliSáttmálinn undirbúinn

1Á fyrsta degi þriðja mánaðar, sama mánaðardag og Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi, komu þeir inn í Sínaíeyðimörkina.

2Þeir lögðu af stað frá Refídím, komu inn í Sínaíeyðimörkina og settu upp búðir sínar þar. Ísrael sló upp tjöldum gegnt fjallinu

3en Móse gekk upp til Guðs.

Drottinn hrópaði til hans af fjallinu og sagði: „Segðu svo við niðja Jakobs og kunngjörðu Ísraelsmönnum:

4Þið hafið séð hvernig ég hef farið með Egypta og hvernig ég hef borið ykkur á arnarvængjum og flutt til mín.

5Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir, því að öll jörðin er mín.

6Þið skuluð verða mér konungsríki presta og heilög þjóð. Þetta eru þau orð sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum.“

7Þegar Móse kom aftur stefndi hann saman öldungum þjóðarinnar og flutti þeim öll þau fyrirmæli sem Drottinn hafði falið honum.

8Öll þjóðin svaraði honum einum rómi og sagði: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“ Móse flutti Drottni svar þjóðarinnar.

9Drottinn sagði við Móse: „Nú kem ég til þín í dimmu skýi svo að fólkið geti heyrt þegar ég tala við þig og treyst þér ævinlega.“ Móse skýrði Drottni frá orðum fólksins.

10Drottinn sagði við Móse: „Farðu til fólksins og helgaðu það í dag og á morgun. Það á að þvo klæði sín

11og vera reiðubúið á þriðja degi því að á þriðja degi stígur Drottinn niður á Sínaífjall í augsýn allrar þjóðarinnar.

12Þú skalt setja fólkinu mörk á allar hliðar og segja: Varist að ganga upp á fjallið eða snerta rætur þess. Sérhver, sem snertir fjallið, mun vissulega deyja.

13Engin hönd má snerta það. En hver sem það gerir, hvort heldur það er maður eða skepna, skal grýttur eða skotinn til bana. Þegar hornið er þeytt skulu þeir ganga upp á fjallið.“

14Móse kom því næst niður af fjallinu til fólksins. Hann helgaði fólkið og það þvoði föt sín.

15Síðan sagði hann: „Verið reiðubúnir á þriðja degi. Komið ekki nálægt nokkurri konu.“

16Þegar morgnaði á þriðja degi urðu þrumur og eldingar. Þykkur skýsorti var yfir fjallinu og mjög öflugur hornablástur heyrðist. Skelfdist þá allt fólkið í búðunum.

17Móse leiddi fólkið út úr búðunum í áttina til Guðs og það tók sér stöðu undir fjallinu.

18Allt Sínaífjall var hulið reyk því að Drottinn steig niður á það í eldi. Mökkurinn steig upp af því eins og reykur úr bræðsluofni og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.

19Hornablásturinn varð æ sterkari. Móse talaði og Drottinn svaraði honum svo að heyra mátti.

20Drottinn steig niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn og Móse gekk upp.

21Drottinn sagði við Móse: „Farðu niður og varaðu fólkið við svo að það ryðjist ekki fram til Drottins til að sjá hann því að þá mundu margir láta lífið.

22Jafnvel prestarnir, sem annars nálgast Drottin, verða að helga sig svo að Drottinn ráðist ekki gegn þeim.“

23Móse svaraði Drottni: „Fólkið getur ekki gengið upp á Sínaífjall því að þú hefur varað okkur við og sagt: Afmarkaðu fjallið og helgaðu það.“

24Drottinn sagði við hann: „Farðu nú, gakktu niður og komdu svo upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki reyna að brjótast upp hingað til Drottins svo að hann ráðist ekki gegn þeim.“

25Móse gekk niður til fólksins og sagði því þetta.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help