1Guð sagði við Móse: „Gakk upp til Drottins, þú sjálfur, Aron, Nadab, Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels. Þið skuluð falla fram álengdar.
2Móse einn skal nálgast Drottin en hinir skulu ekki nálgast hann og fólkið má ekki fara upp með honum.“
3Móse kom og skýrði fólkinu frá öllum orðum Drottins og öllum réttarreglunum. Allt fólkið svaraði einum rómi og sagði: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“
4Því næst skráði Móse öll boð Drottins.
Morguninn eftir var hann snemma á fótum og reisti altari við fjallsræturnar og tólf merkisteina fyrir tólf ættbálka Ísraels.
5Síðan lét hann unga Ísraelsmenn ganga fram og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu nautum í heillafórn.
6Móse tók helming blóðsins og hellti því í skálar en helmingi blóðsins stökkti hann á altarið.
7Því næst tók hann sáttmálsbókina og las hana fyrir fólkið sem sagði: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið og hlýða honum.“
8Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: „Þetta er blóð sáttmálans sem Drottinn gerir hér með við ykkur og byggður er á öllum þessum fyrirmælum.“
9Þá gengu þeir Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels upp á fjallið
10og þeir sáu Guð Ísraels. Undir fótum hans var eitthvað sem líktist safírhellum, tært eins og himinninn sjálfur.
11Hann rétti ekki út hönd sína gegn höfðingjum Ísraels og þeir horfðu á Drottin og átu og drukku.
12Drottinn sagði við Móse: „Kom til mín upp á fjallið og dveldu þar. Ég skal fá þér steintöflurnar, lögin og boðorðin sem ég hef skráð til að leiðbeina þeim.“
13Þá reis Móse á fætur ásamt Jósúa, þjóni sínum, og Móse fór upp á fjall Guðs.
14En hann hafði sagt við öldungana: „Verið hér um kyrrt þar til við komum aftur. Aron og Húr verða hjá ykkur. Sá sem á í málaferlum getur snúið sér til þeirra.“
15Síðan fór Móse upp á fjallið, skýið huldi það
16og dýrð Drottins settist að á fjallinu. Skýjaþykknið huldi fjallið í sex daga en á sjöunda degi kallaði hann til Móse úr því miðju.
17Í augum Ísraelsmanna leit dýrð Drottins út eins og eyðandi eldur á fjallstindinum.
18En Móse gekk inn í mitt skýið og fór upp á fjallið. Móse dvaldist á fjallinu fjörutíu daga og fjörutíu nætur.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.