1Þetta eru réttarreglur sem þú skalt leggja fyrir þá.
Hebreskir þrælar2Þegar þú kaupir hebreskan þræl skal hann vinna sem þræll í sex ár. Á sjöunda ári skal hann halda burt sem frjáls maður án lausnargjalds.
3Hafi hann komið einhleypur skal hann fara einhleypur en hafi hann verið kvæntur skal kona hans fara með honum.
4Hafi húsbóndi hans fengið honum eiginkonu og hún alið honum syni eða dætur eru konan og börn hennar eign húsbónda hennar. Þrællinn skal fara einhleypur.
5Hafi nú þrællinn sagt: Mér þykir vænt um húsbónda minn, eiginkonu mína og börn og vil því ekki fá frelsi,
6skal húsbóndi hans leiða hann fram fyrir Guð og að dyrunum eða dyrastafnum. Síðan skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra hans og hann verða þræll hans ævilangt.
7Þegar maður selur dóttur sína sem ambátt fær hún ekki að fara frjáls ferða sinna á sama hátt og þrælar.
8Hafi húsbóndi hennar ætlað hana sjálfum sér en hún ekki fallið honum í geð skal hann leyfa að hún verði keypt laus. Hann hefur ekki rétt til að selja hana útlendingum því að hann hefur svikið hana.
9Hafi hann ætlað hana syni sínum skal hún hafa sama rétt og dætur.
10Taki hann sér enn eina konu má hann ekki minnka við hana mat, klæðnað eða sambúð.
11Veiti hann henni ekki þetta þrennt getur hún farið burt án þess að lausnargjald verði greitt.
Glæpir sem varða dauðarefsingu12Sá sem lýstur mann banahögg skal líflátinn.
13En hafi hann ekki setið um líf hans, heldur hafi Guð látið manninn verða fyrir hendi hans, mun ég velja stað fyrir þig sem hann getur flúið til.
14Sýni maður þá bíræfni að myrða einhvern með svikum skaltu grípa hann, jafnvel við altari mitt, og færa til lífláts.
15Sá sem slær föður sinn eða móður skal líflátinn.
16Sá sem rænir manni skal líflátinn, hvort sem hann selur hann eða maðurinn finnst í vörslu hans.
17Sá sem bölvar föður sínum eða móður skal líflátinn.
Lög um líkamsmeiðingar og búfjártjón18Deili menn og annar slær hinn með steini eða krepptum hnefa og hann deyr ekki en verður rúmliggjandi,
19kemst síðan á fætur og getur gengið um úti við staf, er sá sem sló hann sýkn saka. Samt skal hann bæta honum vinnutap og læknismeðferð.
20Berji maður þræl sinn eða ambátt með staf svo að af hlýst bani skal þess hefnt.
21En lifi hann einn dag eða tvo skal þess ekki hefnt því að hann er eign mannsins.
22Fljúgist menn á og rekist á þungaða konu svo að henni leysist höfn án þess að annar skaði hljótist af skal sá sem olli greiða þær bætur sem eiginmaður hennar ákveður. Hann skal greiða bætur frammi fyrir dómurum.
23En hljótist skaði af skaltu láta líf fyrir líf,
24auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, fót fyrir fót,
25brunasár fyrir brunasár, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu.
26Slái maður þræl sinn eða ambátt á augað og skemmi það skal gefa honum frelsi fyrir augað.
27Slái hann tönn úr þræli sínum eða ambátt skal hann gefa honum frelsi fyrir tönnina.
28Stangi naut karl eða konu til bana skal grýta nautið og ekki neyta kjötsins. Eigandi nautsins er þá sýkn saka.
29Hafi nautið stangað áður og eigandi nautsins verið varaður við en ekki gætt nautsins sem skyldi svo að það verður karli eða konu að bana, skal grýta nautið. Eigandi þess skal einnig tekinn af lífi.
30En séu honum gerðar fébætur skal hann greiða það sem á hann er lagt í lausnargjald fyrir líf sitt.
31Stangi nautið dreng eða stúlku skal farið með eiganda þess eftir sömu reglum.
32Stangi það þræl eða ambátt skal eigandi þess greiða húsbónda þeirra þrjátíu sikla silfurs og nautið skal grýtt.
33Láti maður brunn standa opinn eða grafi brunn án þess að byrgja hann og naut eða asni fellur í hann,
34skal eigandi brunnsins bæta. Hann skal greiða eiganda dýrsins fé fyrir það en sjálfur halda dauða dýrinu.
35Stangi naut manns naut annars manns til bana skulu þeir selja nautið sem lifir og skipta verði þess. Dauða nautinu skulu þeir einnig skipta.
36Ef vitað var að nautið hefði stangað áður og eigandi þess ekki gætt þess sem skyldi, skal hann bæta naut með nauti en sjálfur fær hann dauða nautið.
37Steli maður nauti eða sauði og slátrar eða selur, skal hann bæta naut með fimm nautum og sauðinn með fjórum sauðum.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.