1Sófar frá Naama svaraði og sagði:
2Hugrenningar mínar knýja á um svör,
ég er því órór í skapi.
3Ég verð að hlusta á móðgandi ávítur
en ég svara af dómgreind minni.
4Veistu ekki að þessu hefur ætíð verið þannig varið,
allt frá því Guð setti menn í heiminn,
5að fögnuður óguðlegra er skammær
og gleði ranglátra varir örskotsstund?
6Þótt hroki hans nái til himins
og hvirfill hans nemi við ský
7hverfur hann samt að fullu eins og hans eigin saur.
Þeir sem sáu hann spyrja þá: „Hvar er hann?“
8Hann líður burt eins og draumur og finnst ekki aftur,
hverfur á braut líkt og nætursýn.
9Augað, sem sá hann, sér hann ekki framar,
lítur hann aldrei aftur í bústað hans.
10Börn hans leita ásjár hjá snauðum
og með eigin höndum verður hann að afhenda auð sinn.
11Þótt bein hans séu full af æskuþrótti
leggjast þau samt í mold með honum.
12Verði illskan sæt í munni hans,
feli hann hana undir tungu sér,
13geymi hana og sleppi ekki,
treini hana undir gómi sínum,
14þá breytist fæðan í iðrum hans
og verður að nöðrueitri í líkama hans.
15Auðnum, sem hann gleypti, varð hann að spýja,
Guð þvingar hann úr kviði hans.
16Hann saug nöðrueitur,
tunga slöngunnar drap hann.
17Aldrei fær hann að njóta rennandi lækja
eða streymandi mjólkur og hunangs.
18Hann skilar aftur ágóða sínum og neytir hans aldrei,
hann fær ekki að gleðjast yfir gróðanum af vöruskiptum sínum
19því að hann kúgaði snauða og yfirgaf þá síðan.
Hann sölsaði undir sig hús en byggði ekki.
20Hann var óseðjandi
og komst því ekki undan með það sem hann hafði ásælst.
21Ekkert komst undan græðgi hans,
þess vegna varð velsæld hans skammæ.
22Þrátt fyrir allsnægtir kemst hann í þrengingar,
allur þungi mæðunnar hvílir á honum.
23Þar sem kviður hans verður að fyllast
sendir Guð honum brennandi reiði sína
og lætur skelfingum sínum rigna yfir hann.
24Flýi hann undan járnvopnum
mun eirbogi skjóta í gegnum hann.
25Hann kippir örinni úr baki sínu
og blikandi oddi úr gallblöðru sinni.
Þá grípur hann skelfing.
26Myrkrið eitt bíður niðja hans,
eldur, sem engin blæs að, gleypir hann
og eyðir því sem eftir er í tjaldi hans.
27Himinninn afhjúpar sekt hans
og jörðin rís gegn honum.
28Flóð skolar burt húsi hans,
vatnsflaumur á degi reiðinnar.
29Þetta kemur í hlut guðleysingja
og er erfðahluti hans frá Guði.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.