1Etansmaskíl Esraíta.
2Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu
og kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns.
3Því að ég segi: Náð þín er traust að eilífu,
trúfesti þín grundvölluð á himni.
4Ég gerði sáttmála við minn útvalda,
vann Davíð þjóni mínum eið:
5Ég mun festa ætt þína í sessi að eilífu
og hásæti þitt reisi ég frá kyni til kyns. (Sela)
6Himnarnir lofa dásemdarverk þín, Drottinn,
og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7Því að hver er í upphæðum jafn Drottni
og hver af guðanna sonum er Drottni líkur?
8Guð er ógnvekjandi í hópi heilagra,
meiri og óttalegri öllum sem eru umhverfis hann.
9Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú?
Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín umlykur þig.
10Þú ríkir yfir ofstopa hafsins,
þú lægir rísandi öldurnar,
11þú knosaðir skrímslið Rahab til dauða
og tvístraðir óvinum þínum með voldugum armi.
12Þinn er himinninn, þín er jörðin,
þú grundvallaðir heiminn og allt sem í honum er.
13Norðrið og suðrið skapaðir þú,
Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14Armur þinn er máttugur, hönd þín sterk,
hægri hönd þín hátt upp hafin.
15Réttlæti og réttvísi eru stoðir hásætis þíns,
miskunn og trúfesti þjóna fyrir augliti þínu.
16Sæl er sú þjóð sem kann að hylla þig, Drottinn,
sem gengur í ljóma auglitis þíns,
17fagnar yfir nafni þínu hvern dag
og gleðst yfir réttlæti þínu.
18Því að þú ert prýði hennar og máttur
og fyrir velþóknun þína er horn vort hafið.
19Því að skjöldur vor heyrir Drottni til
og konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20Áður fyrr talaðir þú í sýn
til þeirra sem treystu þér og sagðir:
„Ég hef sett kórónu á kappa,
upphafið ungan mann af lýðnum.
21Ég fann þjón minn Davíð,
smurði hann með minni heilögu olíu.
22Hönd mín mun styðja hann
og armur minn styrkja hann.
23Enginn óvinur mun yfirbuga hann
og enginn ofbeldismaður beygja hann,
24í augsýn hans mun ég brjóta andstæðinga hans á bak aftur,
gera út af við hatursmenn hans.
25Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum
og vegna nafns míns mun horn hans hátt upp hafið.
26Ég legg hönd hans á hafið,
hægri hönd hans á fljótin.
27Hann mun hrópa til mín: Þú ert faðir minn,
Guð minn, og klettur hjálpræðis míns.
28Ég geri hann að frumburði mínum,
að hinum æðsta meðal konunga jarðar.
29Ég mun varðveita miskunn mína við hann að eilífu,
sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30Ég mun viðhalda ætt hans um aldur
og hásæti hans meðan himinninn stendur.
31Hverfi synir hans frá lögmáli mínu,
fylgi þeir ekki reglum mínum,
32vanhelgi lög mín
og haldi ekki boðorð mín,
33þá mun ég vitja afbrota þeirra með vendinum
og misgjörða þeirra með plágum
34en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka
og eigi bregða trúfesti minni.
35Ég mun ekki vanhelga sáttmála minn
og ekki taka það aftur sem mér hefur af vörum liðið.
36Eið sór ég við heilagleika minn:
Ég mun aldrei bregðast Davíð.
37Ætt hans skal haldast við um aldur og ævi
og hásæti hans sem sólin frammi fyrir mér,
38það skal standa að eilífu sem tunglið,
hið trausta vitni ofar skýjum.“ (Sela)
39En nú hefur þú hafnað þínum smurða,
útskúfað honum í reiði þinni,
40þú hefur rift sáttmálanum við þjón þinn,
vanhelgað kórónu hans og fleygt til jarðar.
41Þú braust niður alla varnarmúra hans
og lagðir virki hans í rúst.
42Allir vegfarendur ræna hann
og grannar hans hæða hann.
43Þú hefur hafið hægri hönd óvina hans
og glatt alla fjandmenn hans.
44Þú snerir sverðseggjum hans undan
og studdir hann ekki í stríðinu.
45Þú eyddir vegsemd hans
og steyptir hásæti hans til jarðar.
46Þú hefur stytt æskudaga hans
og hulið hann smán. (Sela)
47Hversu lengi, Drottinn,
ætlar þú að dyljast,
á reiði þín að loga sem eldur?
48Minnstu þess hve ævi mín er stutt
og til hvílíks fánýtis þú hefur skapað mennina.
49Hver er sá er lifir og sér eigi dauðann,
hver heimtir líf sitt úr greipum heljar? (Sela)
50Hvar eru fyrri náðarverk þín, Drottinn,
sem þú sórst Davíð í trúfesti þinni?
51Minnstu, Drottinn, háðungar þjóna þinna,
á mér hvílir háð margra þjóða
52sem fjandmenn þínir smánuðu þig með, Drottinn,
og vanvirtu fótspor þíns smurða.
53Lofaður sé Drottinn að eilífu.
Amen. Amen.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.