1Á átjánda stjórnarári Jeróbóams konungs Nebatssonar varð Abía konungur í Júda.
2Hann ríkti þrjú ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Absalonsdóttir.
3Hann drýgði allar sömu syndir og faðir hans hafði áður drýgt og hann fylgdi Drottni, Guði sínum, ekki heils hugar eins og Davíð, forfaðir hans, hafði gert.
4Samt gaf Drottinn, Guð hans, honum lampa í Jerúsalem vegna Davíðs með því að gera son hans að eftirmanni hans og varðveita Jerúsalem
5því að Davíð hafði gert það sem rétt var í augum Drottins og í engu vikið frá því sem Drottinn bauð honum, á meðan hann lifði, nema í máli Úría Hetíta.
6Rehabeam átti í stríði við Jeróbóam alla ævi.
7Það sem ósagt er af sögu Abía og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. Ófriður var með Abía og Jeróbóam.
8Abía var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í borg Davíðs. Asa sonur hans varð konungur eftir hann.
Asa konungur í Júda9Á tuttugasta stjórnarári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur í Júda.
10Hann ríkti fjörutíu og eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Absalonsdóttir.
11Asa gerði það sem rétt var í augum Drottins eins og Davíð, forfaðir hans.
12Hann rak hofskækjurnar úr landinu og fjarlægði guðamyndirnar sem forfeður hans höfðu látið gera.
13Hann svipti jafnvel Maöku, móður sína, konungsmóðurtign sinni af því að hún hafði látið gera viðurstyggilega mynd af Aséru. Asa hjó mynd hennar í sundur og brenndi hana í Kedrondal.
14Að vísu hurfu fórnarhæðirnar ekki en samt fylgdi Asa Drottni af heilum hug allt sitt líf.
15Hann flutti einnig helgigjafir föður síns og sínar eigin helgigjafir í musteri Drottins, bæði silfur og gull og ýmis áhöld.
16Ófriður var með Asa og Basa Ísraelskonungi á meðan þeir lifðu.
17Basa Ísraelskonungur hélt í herför gegn Júda og víggirti Rama til að loka leiðinni fyrir öllum til og frá Asa Júdakonungi.
18Þá tók Asa allt silfur og gull sem enn var í fjárhirslum húss Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar og fékk það í hendur þjónum sínum. Hann sendi þá til Benhadads Aramskonungs, sonar Tabrimmons Hesíonssonar sem ríkti í Damaskus. Lét Asa þá flytja þessi skilaboð:
19„Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Ég sendi þér hér með gjöf, gull og silfur. Rjúfðu sáttmála þinn við Basa Ísraelskonung svo að hann hörfi frá mér.“
20Benhadad varð við tilmælum Asa konungs. Hann sendi hershöfðingja sína í herför gegn borgum Ísraels og sigraði Íjón, Dan og Abel-Bet-Maaka en auk þess allt Kinnerot og allt land Naftalíættbálks.
21Þegar Basa frétti þetta hætti hann að víggirða Rama og fór aftur til Tirsa.
22Þá kvaddi Asa konungur saman alla Júdamenn með tölu og lét þá flytja burt steinana og timbrið sem Basa hafði notað til að víggirða Rama. Asa konungur víggirti síðan Geba í Benjamín og Mispa með byggingarefninu.
23Það sem ósagt er af sögu Asa, verkum hans, dáðum og borgunum, sem hann reisti, er skráð í annála Júdakonunga. En svo fór að hann varð fótaveikur í ellinni
24og var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs, forföður síns. Jósafat, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Nadab konungur í Ísrael25Nadab, sonur Jeróbóams, varð konungur yfir Ísrael á öðru stjórnarári Asa Júdakonungs. Hann ríkti í Ísrael tvö ár.
26Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann breytti á sama hátt og faðir hans og drýgði sömu syndir og hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
27Basa, sonur Ahía af ættbálki Íssakars, gerði samsæri gegn honum. Basa felldi Nadab í Gibbeton, sem er eign Filistea, þegar Nadab og allur Ísrael sat um Gibbeton.
28Basa drap hann á þriðja stjórnarári Asa Júdakonungs og varð konungur eftir hann.
29Þegar Basa var orðinn konungur drap hann alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan af ætt Jeróbóams halda lífi heldur tortímdi henni allri eins og Drottinn hafði boðað fyrir munn þjóns síns, Ahía frá Síló.
30Þetta varð vegna þeirra synda sem Jeróbóam hafði drýgt og hann hafði komið Ísrael til að drýgja og með því vakið reiði Drottins, Guðs Ísraels.
31Það sem ósagt er af sögu Nadabs og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.
32Asa og Basa Ísraelskonungur áttu í ófriði meðan þeir lifðu.
Basa konungur í Ísrael33Á þriðja stjórnarári Asa Júdakonungs varð Basa, sonur Ahía, konungur yfir öllum Ísrael. Hann ríkti tuttugu og fjögur ár í Tirsa.
34Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann breytti eins og Jeróbóam og drýgði sömu syndir og þær sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.