14 Hér fer á eftir afrit af bréfinu: „Stórkonungurinn Artaxerxes sendir landstjórum og þeim sem héruðum stýra í skattlöndunum eitt hundrað tuttugu og sjö, frá Indlandi til Eþíópíu, þessa tilskipun:
15 Eftir að ég tók að ríkja yfir mörgum þjóðum og fékk vald yfir öllum heimi hef ég kappkostað að tryggja þegnum mínum friðsamt líf. Ekki er það af hroka vegna valds míns heldur sakir mildi minnar og góðvildar. Ég vil reyna að skapa ró í ríki mínu og tryggja góðar samgöngur allt til endimarka þess og stuðla þannig að því að sá friður komist á sem allir menn þrá.
16 En þegar ég spurði ráðgjafa mína hvernig þessu yrði til vegar komið kvaddi Haman sér hljóðs. Hann er maður sem í þjónustu vorri hefur sýnt mikla vitsmuni, óbrigðula góðvild og órofa tryggð við oss og gengur oss næst að tign í ríkinu.
17 Tjáði hann oss að meðal allra þjóða jarðarinnar hefði illa innrættur lýður komið sér fyrir. Þeir fylgja lögum sem eru andsnúin öllum þjóðum og virða tilskipanir konungs stöðugt að vettugi. Það spillir þeirri einingu sem vér þráum einlæglega að haldist í ríkinu.
18 Oss er nú orðið ljóst að þessi eina þjóð á í sífelldum útistöðum við alla menn. Hún hefur annarlega siði, fer að eigin lögum, fjandskapast við stjórnarháttu vora og drýgir hin verstu ódæði svo að öryggi ríkisins stafar mikil hætta af.
19 Vér mæltum því svo fyrir: Öllum þeim sem Haman, ráðsherra vor og annar faðir, hefur bent á í bréfi sínu, sem og konum þeirra og börnum, skal fullkomlega, án miskunnar og vægðarlaust gereytt með sverði óvina sinna hinn fjórtánda dag í adar, tólfta mánuði yfirstandandi árs.
20 Þá mun friður og ró ríkja um alla framtíð þegar þetta fólk, sem fyrr og síðar hefur verið fjandsamlegt, hefur vægðarlaust verið sent til heljar á einum og sama degi.“
21 Afrit bréfsins var sett upp í öllum skattlöndunum og öllum þjóðum gert að vera viðbúnar þegar dagurinn rynni.
22 Skjótlega varð þetta einnig lýðum ljóst í Súsa og varð mikill órói í borginni, en konungur og Haman sátu saman að drykkju.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.