Jósúabók 2 - Biblían (2007)

Rahab og njósnararnir í Jeríkó

1Jósúa Núnsson sendi nú tvo njósnara með leynd frá Sittím. „Farið,“ sagði hann, „kannið landið, þó einkum Jeríkó.“

Þeir fóru og komu í hús skækju einnar sem hét Rahab og gistu þar.

2Konunginum í Jeríkó var þá sagt: „Í kvöld komu hingað nokkrir Ísraelsmenn til þess að njósna um landið.“

3Konungurinn í Jeríkó sendi þá til Rahab og lét segja henni: „Framseldu mennina sem komu til þín því að þeir komu til þess að kanna allt landið.“

4Konan sótti þá báða mennina og faldi þá. Því næst svaraði hún: „Það er að vísu rétt að mennirnir komu til mín en ég vissi ekki hvaðan þeir voru.

5Þegar rökkva tók og loka átti borgarhliðinu fóru mennirnir burt. Ég veit ekki hvert þeir fóru. Farið þegar í stað á eftir þeim, þá getið þið náð þeim.“

6Hún hafði látið þá fara upp á þakið og falið þá undir hörstönglum sem voru breiddir á þakið.

7En konungsmenn veittu þeim eftirför eftir veginum sem liggur að vöðunum yfir Jórdan. Jafnskjótt og konungsmenn voru farnir út var borgarhliðunum lokað.

8Þar eð njósnararnir voru enn ekki lagstir til svefns fór konan upp á þakið til þeirra

9og sagði við þá: „Ég veit að Drottinn hefur gefið ykkur landið. Við erum skelfingu lostin og allir íbúar landsins máttvana af ótta við ykkur.

10Við höfum frétt hvernig Drottinn þurrkaði upp vatnið í Sefhafinu fyrir framan ykkur þegar þið hélduð út úr Egyptalandi og hvernig þið fóruð með báða konunga Amoríta handan við Jórdan, þá Síhon og Óg, sem þið helguðuð banni.

11Þegar við fréttum það misstum við móðinn og öllum hvarf kjarkur sökum ykkar því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.

12En vinnið mér nú eið við Drottin: Sýnið fjölskyldu minni velvild, þar eð ég sýndi ykkur velvild, og gefið mér ótvírætt tákn þess.

13Þyrmið föður mínum og móður, bræðrum og systrum og öllu þeirra fólki. Bjargið okkur frá dauða.“

14Mennirnir svöruðu henni: „Við leggjum líf okkar að veði fyrir líf ykkar. Ef þú ljóstrar ekki upp erindi okkar munum við sýna þér velvild og tryggð þegar Drottinn gefur okkur landið.“

15Þá lét hún mennina síga í vað út um gluggann en hús hennar var áfast borgarmúrnum svo að sjálf bjó hún raunar í borgarmúrnum.

16„Haldið til fjalla,“ sagði hún síðan, „svo að þeir sem veita ykkur eftirför rekist ekki á ykkur. Þar skuluð þið fela ykkur í þrjá daga, þar til þeir sem elta ykkur eru komnir aftur. Síðan getið þið farið leiðar ykkar.“

17Mennirnir svöruðu henni: „Við erum leystir undan eiðnum sem þú tókst af okkur

18nema þú gerir svo: Þegar við komum inn í landið skaltu binda þessa fléttuðu, purpurarauðu snúru í gluggann sem þú lést okkur síga út um. Því næst skaltu safna föður þínum og móður, bræðrum þínum og allri fjölskyldu þinni í húsið til þín.

19En gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum en við sýknir. En verði hendur lagðar á einhvern sem er með þér í húsinu verður það okkar sök.

20Ef þú segir frá erindi okkar erum við leystir undan eiðnum sem þú tókst af okkur.“

21Hún svaraði: „Svo skal vera sem þið hafið sagt.“

Síðan lét hún þá fara og þeir gengu burt en hún batt purpurarauðu snúruna í gluggann.

22Þeir héldu sem leið lá upp í fjalllendið og voru þar um kyrrt í þrjá daga þar til leitarmennirnir höfðu snúið aftur. Leitarmennirnir höfðu leitað þeirra veginn á enda en ekki fundið.

23Þá héldu báðir mennirnir heim á leið ofan úr fjalllendinu, yfir Jórdan og til Jósúa Núnssonar. Þeir skýrðu honum frá öllu sem fyrir þá hafði komið

24og sögðu því næst við Jósúa: „Drottinn hefur selt okkur landið allt í hendur og allir íbúar landsins eru máttlausir af hræðslu við okkur.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help