Jesaja 25 - Biblían (2007)

Þakkarsálmur

1Drottinn, þú ert minn Guð.

Ég vegsama þig, ég lofa nafn þitt

því að þú hefur unnið furðuverk,

framkvæmt löngu ráðin ráð

sem í engu brugðust.

2Því að þú gerðir borgina að grjóthrúgu,

hið rammgera virki að rúst,

hallir hrokafullra eru ekki framar virki,

það verður aldrei endurreist.

3Þess vegna mun voldug þjóð heiðra þig,

borg ofstopafullra þjóða sýna þér lotningu,

4því að þú varst vörn lítilmagnans,

vörn hins þurfandi í þrengingum hans,

skjól í skúrum, hlíf í hita.

Andi ofríkismanna er eins og kuldaskúrir að vetri,

5breyskja í skrælnuðu landi.

Þú lægir háreysti hrokafullra.

Eins og breyskja hverfur fyrir skugga af skýi

hljóðnar söngur ofríkismannanna.

Veisla á Síonarfjalli

6Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli

búa öllum þjóðum veislu,

veislu með réttum fljótandi í olíu

og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg

og skírðu dreggjavíni.

7Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,

sem er hula öllum þjóðum

og forhengi öllum lýðum,

8mun hann afmá dauðann að eilífu.

Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu

og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni

því að Drottinn hefur talað.

9Á þeim degi verður sagt:

Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á

og hann mun frelsa oss.

Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,

fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans

10því að hönd Drottins mun hvíla á þessu fjalli.

Gegn Móab

Móab verður fótum troðinn þar sem hann er,

líkt og hálmur sem er troðinn niður í forarvilpu.

11Þótt hann teygi út hendurnar í forinni

eins og sundmaður gerir á sundi

mun Drottinn lægja hroka hans

þrátt fyrir fálm handa hans.

12Háa virkismúra þína mun hann brjóta niður,

hann mun jafna þá við jörðu,

gera þá að dufti.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help