Síðari kroníkubók 4 - Biblían (2007)

Búnaður musterisins

1Hann gerði eiraltari, tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tíu á hæð.

2Hann steypti einnig hafið. Tíu álnir voru milli barma. Það var hringlaga, fimm álnir á dýpt og þrjátíu álnir að ummáli.

3Neðan við barm þess voru myndir af nautum allan hringinn, tíu á hverri alin. Allt umhverfis hafið voru tvær raðir af nautum og voru þau samsteypt hafinu.

4Hafið stóð á tólf nautum. Sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður og þrjú í austur. Hafið hvíldi ofan á þeim og sneru bakhlutar þeirra inn.

5Hafið var þverhönd á þykkt og barmur þess mótaður eins og barmur bikars, eins og útsprungið lótusblóm. Það tók þrjú þúsund böt.

6Hann gerði einnig tíu ker, ætluð til þvotta, og kom fimm þeirra fyrir sunnan megin og fimm norðan megin. Í þeim skyldi skola það sem tilreitt var til brennifórnar en hafið var til þvotta fyrir prestana.

7Hann gerði tíu gullljósastikur samkvæmt fyrirmælum um þær og lét koma fyrir í musterissalnum, fimm hægra megin og fimm vinstra megin.

8Hann gerði einnig tíu borð og kom þeim fyrir í musterissalnum, fimm hægra megin og fimm vinstra megin.

Enn fremur gerði hann hundrað skálar úr gulli.

9Hann gerði einnig forgarð prestanna og stóra forgarðinn og hurðirnar fyrir forgarðinn. Hurðirnar þakti hann eir.

10Hann kom hafinu fyrir við suðurhlið hússins gegnt suðaustri.

11Húram gerði pottana, skóflurnar og skálarnar. Þar með lauk Húram því verki sem hann vann fyrir Salómon konung við hús Guðs:

12Tvær súlur, tvö hvelfd súlnahöfuð ofan á súlunum, bæði netin til að hylja hvelfdu súlnahöfuðin,

13fjögur hundruð granatepli á báðum netunum, í tveimur röðum á hvoru neti, sem huldu bæði hvelfdu súlnahöfuðin,

14vagngrindurnar tíu og kerin tíu sem voru á vagngrindunum,

15hafið og nautin tólf undir því,

16pottana, skóflurnar og gafflana.

17Konungur lét steypa þau í leirmótum í Jórdanardalnum á milli Súkkót og Sareda.

18Salómon lét gera svo mikið af öllum þessum áhöldum að ekki var hægt að áætla þyngd eirsins í þeim.

19Salómon gerði öll áhöldin í húsi Guðs: gullaltarið og borðin sem skoðunarbrauðin lágu á,

20ljósastikurnar úr skíragulli, svo og lampana sem fylgdu þeim og kveikja skal á fyrir framan bakhúsið samkvæmt lögmálsákvæðunum,

21auk þess blómin, lampana og skarbítana úr gulli og það besta gulli,

22enn fremur hnífana, skálarnar, bollana og eldfötin úr skíragulli. Innri vængjahurðirnar að hinu allra helgasta og vængjahurðir musterissalarins voru úr gulli.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help