Síðari konungabók 22 - Biblían (2007)

Jósía Júdakonungur

1Jósía var átta ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem þrjátíu og eitt ár. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir frá Boskat.

2Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins. Hann fetaði í fótspor Davíðs, forföður síns, og vék hvorki til hægri né vinstri frá þeim.

Lögbókin fundin

3Nú bar svo við á átjánda stjórnarári Jósía konungs að hann sendi ríkisritarann Safan Asaljason Mesúllamssonar til musteris Drottins og sagði:

4„Farðu til Hilkía yfirprests. Hann á að reiða fram það fé sem borið hefur verið í musteri Drottins og þeir sem gæta hliðanna hafa safnað saman hjá fólkinu.

5Síðan skal það fengið verkstjórunum í musteri Drottins og skulu þeir greiða það verkamönnunum sem vinna við að lagfæra skemmdir á því,

6trésmiðum, byggingarverkamönnum og steinsmiðum. Enn fremur skal kaupa fyrir það timbur og höggna steina sem þarf til þess að gera við húsið.

7Ekki skal krefja þá reikningsskila sem trúað er fyrir fénu því að þeir bera sjálfir ábyrgð á verki sínu.“

8Hilkía yfirprestur sagði þá við Safan ríkisritara: „Ég fann lögbók í musteri Drottins.“ Hann fékk honum bókina og Safan las hana.

9Síðan kom Safan ríkisritari til konungs og sagði: „Þjónar þínir hafa reitt fram féð, sem fannst í musteri Drottins, og fengið það verkstjórunum þar.“

10Og Safan ríkisritari sagði við konunginn: „Hilkía yfirprestur fékk mér bók.“ Og Safan las hana fyrir konung.

11Konungur reif klæði sín þegar hann heyrði það sem stóð í lögbókinni

12og gaf þeim Hilkía yfirpresti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan ríkisritara og Asaja, þjóni konungs, svohljóðandi fyrirmæli:

13„Farið og spyrjið Drottin fyrir mig og þjóðina og allan Júda um það sem stendur í bókinni sem hefur fundist. Því að mikil er heift Drottins sem blossað hefur upp gegn okkur þar sem forfeður okkar hafa ekki hlýtt ákvæðum þessarar bókar með því að fara eftir því sem í henni stendur.“

Hulda spámaður

14Þá gekk Hilkía yfirprestur ásamt Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spámanns. Hún var eiginkona Sallúms Tíkvasonar, Harhassonar klæðavarðar. Hún bjó í nýja borgarhverfinu í Jerúsalem.

Þeir sögðu henni erindi sitt

15og hún svaraði: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið þeim sem sendi ykkur til mín:

16Svo segir Drottinn: Ég sendi böl yfir þennan stað og íbúa hans, öll dómsorð bókarinnar sem Júdakonungur hefur lesið.

17Þetta verður vegna þess að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir. Þeir hafa vakið reiði mína með öllum handaverkum sínum, þess vegna brennur heift mín gegn þessum stað og hún mun ekki slokkna.

18Skilið þessu til Júdakonungs sem sendi ykkur til þess að leita svara hjá Drottni: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Dómsorðin, sem þú heyrðir,

19milduðu hjarta þitt og þú auðmýktir þig fyrir augliti Drottins. Þegar þú heyrðir dómsorðin um tortímingu og bannfæringu gegn þessum stað og íbúum hans reifstu klæði þín og grést frammi fyrir mér. Þess vegna bænheyri ég þig, segir Drottinn.

20Þess vegna mun ég láta þig safnast til feðra þinna og þú skalt lagður í gröf þína í friði. Augu þín skulu ekki líta allt það böl sem ég mun senda yfir þennan stað.“ Þetta svar færðu þeir konungi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help