1Drottinn sagði við Móse og Aron í Egyptalandi:
2„Þessi mánuður er upphafsmánuður hjá ykkur. Hann skal teljast fyrsti mánuður ársins hjá ykkur.
3Ávarpið allan söfnuð Ísraels og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal sérhver húsbóndi velja lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hverja fjölskyldu.
4Ef einhver fjölskylda er of lítil fyrir heilt lamb skal hún velja lamb með næstu nágrannafjölskyldu sinni. Þið skuluð skipta lambinu eftir fjölda fólksins, eftir því hvað hver etur.
5Lambið skal vera lýtalaust veturgamalt hrútlamb. Þið getið valið það annaðhvort úr sauðfé eða geitfé.
6Þið skuluð gæta þess til fjórtánda dags þessa mánaðar. Samkoma alls Ísraelssafnaðar skal slátra því í ljósaskiptunum.
7Þeir skulu taka dálítið af blóðinu og rjóða því á báða dyrastafina og dyratréð í húsunum þar sem þeir eta lambið.
8Þeir skulu neyta kjötsins sömu nótt, þeir eiga að eta það steikt við eld með ósýrðu brauði og beiskum jurtum.
9Etið ekkert af því hrátt eða soðið í vatni heldur steikt við eld ásamt haus, fótum og innyflum.
10Þið megið ekki leifa neinu af því til næsta morguns. Það sem kann að verða eftir næsta morgun skuluð þið brenna í eldi.
11Þannig skuluð þið neyta þess: Þið skuluð vera gyrtir um lendar, með skó á fótum og stafi í höndum. Þið skuluð eta það í flýti. Þetta eru páskar Drottins.
12Þessa sömu nótt geng ég um Egyptaland og deyði alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og skepnur. Ég mun einnig framfylgja refsidómum á öllum guðum Egyptalands. Ég er Drottinn.
13Blóðið skal vera tákn ykkar á húsunum sem þið dveljist í. Þegar ég sé blóðið geng ég fram hjá ykkur og þið verðið ekki fyrir hinu banvæna höggi er ég lýst Egyptaland.
14Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur. Þið skuluð halda hann sem hátíð fyrir Drottin. Kynslóð eftir kynslóð sé það ævarandi regla að þið haldið þessa hátíð.
15Í sjö daga skuluð þið eta ósýrt brauð. Fyrsta daginn skuluð þið fjarlægja allt súrdeig úr húsum ykkar því að ef einhver etur eitthvað sýrt frá fyrsta degi til hins sjöunda verður þeim manni eytt úr Ísrael.
16Fyrsta daginn og hinn sjöunda skuluð þið kalla saman heilaga samkomu. Á þessum dögum skal ekkert verk vinna. Þið skuluð aðeins matbúa það sem hver þarf til matar og
17halda fyrirmælin um ósýrðu brauðin því að ég leiddi herskara ykkar út úr Egyptalandi einmitt á þessum degi. Það sé ævarandi regla að halda þennan dag hátíðlegan, kynslóð eftir kynslóð.
18Frá kvöldi fjórtánda dags fyrsta mánaðarins til kvölds tuttugasta og fyrsta dags í sama mánuði skuluð þið eta ósýrt brauð.
19Í sjö daga má súrdeig hvergi finnast í húsum ykkar því að eti einhver það sem sýrt er verður þeim manni gereytt úr söfnuði Ísraels. Þetta gildir hvort sem hann er aðkomumaður eða upprunninn í landinu.
20Þið megið ekkert eta sem sýrt er. Í öllum bústöðum ykkar megið þið aðeins eta ósýrt brauð.“
21Þá stefndi Móse öllum öldungum Ísraels saman og sagði við þá: „Haldið af stað, sækið fé fyrir ættbálka ykkar og slátrið síðan páskalambinu.
22Takið síðan ísópsvönd, dýfið honum í blóðið í skálinni og rjóðið nokkru af blóðinu, sem er í skálinni, á dyratréð og báða dyrastafina. Enginn ykkar má ganga út úr húsi sínu fyrr en að morgni.
23Þegar Drottinn gengur um til að ljósta Egypta sér hann blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum og þá gengur Drottinn fram hjá dyrunum. Hann mun ekki hleypa eyðandanum inn í hús ykkar til að ljósta ykkur til bana.
24Haldið þessi fyrirmæli sem ævarandi reglu, þú og niðjar þínir.
25Þegar þið komið inn í landið, sem Drottinn gefur ykkur eins og hann hefur heitið, skuluð þið halda þennan sið.
26Þegar börn ykkar spyrja: Hvaða merkingu hefur þessi siður í augum ykkar?
27skuluð þið svara: Þetta er páskafórn handa Drottni sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi þegar hann laust Egypta banahögg en þyrmdi húsum okkar.“ Þá féll fólkið og laut til jarðar.
28Síðan fóru Ísraelsmenn og gerðu þetta. Þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið Móse og Aroni.
Tíunda plágan: Dauði frumburða29Um miðnætti laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi til bana, frá frumburði faraós, sem sat í hásæti sínu, til frumburðar fangans, sem sat í fangelsinu, og alla frumburði búfjár.
30Faraó fór á fætur um nóttina ásamt öllum þjónum sínum og öllum Egyptum. Varð mikið harmakvein í Egyptalandi því að ekkert það hús var til að þar væri enginn látinn.
31Faraó kallaði Móse og Aron fyrir sig um nóttina og sagði: „Haldið af stað og farið burt frá þjóð minni, bæði þið sjálfir og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni eins og þið hafið sagt.
32Takið með ykkur bæði fénað ykkar og naut. Farið og biðjið einnig fyrir mér.“
33Egyptar ráku á eftir fólkinu til að koma því sem fyrst út úr landinu því að þeir hugsuðu: „Annars deyjum við allir.“
34Fólkið tók með sér brauðdeig áður en það var orðið súrt, vafði deigtrogin í skikkjur sínar og tók þau á axlir sér.
35Ísraelsmenn höfðu fylgt ráði Móse og beðið Egypta um silfurgripi, gullgripi og klæði.
36En Drottinn hafði látið þjóðina njóta velvildar Egypta svo að þeir höfðu orðið við bæn hennar. Þannig rændi hún Egypta.
Brottför Ísraels37Ísraelsmenn lögðu nú af stað frá Ramses áleiðis til Súkkót. Þeir voru um það bil sex hundruð þúsund fótgangandi karlmenn og að auki konur og börn.
38Fjölmennur, sundurleitur hópur fólks fór með þeim, einnig hjarðir sauðfjár og nautgripa.
39Þeir bökuðu ósýrðar flatar kökur úr brauðdeiginu sem þeir höfðu tekið með sér frá Egyptalandi. Deigið hafði ekki súrnað því að þeir voru reknir út úr Egyptalandi og vannst ekki einu sinni tími til að taka til nesti.
40Ísraelsmenn dvöldust í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár.
41Einmitt á þeim degi, þegar fjögur hundruð og þrjátíu ár voru liðin, héldu allar hersveitir Drottins út úr Egyptalandi.
42Þetta var vökunótt Drottins til þess að hann gæti leitt þá út úr Egyptalandi. Þetta er nótt Drottins og þessa nótt vaka allir Ísraelsmenn frá kyni til kyns.
43Drottinn sagði við Móse og Aron: „Þetta er ákvæðið um páskalambið: Enginn útlendingur má eta neitt af því.
44En sérhver þræll, sem er keyptur fyrir fé, má neyta þess þegar hann hefur verið umskorinn.
45Enginn gestur eða daglaunamaður má eta af því.
46Það skal etið í sama húsinu. Ekkert af kjötinu má bera út úr húsinu og ekkert bein megið þið brjóta.
47Allur söfnuður Ísraels skal breyta þannig.
48Ef aðkomumaður dvelst hjá þér undir þinni vernd og hann vill halda Drottni páska skal umskera allt karlkyns hjá honum. Þá má hann taka þátt í hátíðarhaldinu og skal hann vera sem innborinn maður. Enginn óumskorinn má eta neitt af lambinu.
49Sömu lög gilda fyrir þá sem fæddir eru í landinu og aðkomumanninn sem nýtur verndar á meðal ykkar.“
50Allir Ísraelsmenn gerðu þetta. Þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið Móse og Aroni.
51Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út úr Egyptalandi fylktu liði.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.