Esekíel 7 - Biblían (2007)

Endirinn kemur

1Orð Drottins kom til mín:

2Mannssonur, svo segir Drottinn Guð við land Ísraels:

Endir er kominn,

endirinn fyrir fjögur horn heimsins.

3Nú eru endalok þín komin,

ég sleppi lausri heift minni gegn þér

og dæmi þig samkvæmt hegðun þinni

og launa þér svívirðingar þínar.

4Ég mun hvorki líta þig vægðarauga

né sýna þér miskunn,

heldur mun ég launa þér breytni þína

og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín.

Þá skuluð þér skilja að ég er Drottinn.

5Svo segir Drottinn Guð:

Ógæfa á ógæfu ofan,

hún er yfir dunin.

6Endir er kominn,

endalokin orðin,

endalokin komin yfir þig.

7Nú er komið að þér,

íbúi landsins,

tíminn er kominn,

dagurinn í nánd.

8Brátt úthelli ég reiði minni yfir þig

og svala heift minni á þér.

Ég mun dæma þig eftir breytni þinni

og launa þér svívirðingar þínar.

9Ég mun hvorki líta þig vægðarauga

né sýna þér miskunn

því að ég mun launa þér breytni þína

og svívirðingar þínar skulu vera mitt

á meðal þín.

Þá munuð þér skilja að ég, Drottinn,

er sá sem slær.

10Dagurinn er kominn,

hann er kominn.

Endalokin komin,

ranglætið blómstrar,

hrokinn vex,

11ofbeldið eykst,

verður svipa guðlausra.

Enginn þeirra verður eftir,

ekkert eftir af auði þeirra,

ekkert af vegsemd þeirra og dýrð.

12Tíminn er kominn,

dagurinn í nánd.

Kaupandinn gleðjist ekki,

og seljandinn syrgi ekki

því að reiði kemur yfir allan landslýð.

13Seljandinn kemst ekki aftur til hins selda

þó að báðir haldi lífi

því að heiftin kemur yfir allan landslýð,

hún snýr ekki aftur,

og sá sem lifir í synd sinni

mun ekki lífi halda.

14Hornið er þeytt,

allir herbúnir

en enginn heldur til orrustu

því að reiði mín kemur yfir allan landslýð.

15Sverð er úti fyrir,

inni drepsótt og hungur.

Sá sem er úti á akri

skal falla fyrir sverði.

Sá sem er inni í borginni

verður hungri og drepsótt að bráð.

16Komist nokkrir þeirra undan

hafast þeir við í fjöllunum

eins og daladúfurnar,

þeir munu allir deyja,

hver þeirra vegna syndar sinnar.

17Allar hendur verða máttvana

og öll kné kikna.

18Þeir gyrða sig hærusekk

og skelfingin hylur þá,

hvert andlit roðnar af skömm

og hvert höfuð er nauðrakað.

19Þeir fleygja silfri sínu á göturnar,

gullið verður að skarni.

Silfur þeirra og gull fær ekki bjargað þeim

á degi reiði Drottins.

Þeir geta ekki satt hungur sitt,

ekki fyllt kvið sinn,

því að þetta varð þeim hrösunarhella.

20Þeir hreyktu sér af dýrmætu skarti sínu

og gerðu sér úr því andstyggileg skurðgoð

sem vekja viðbjóð.

Því hef ég gert þetta allt að skarni fyrir þeim

21og sel það framandi mönnum í hendur sem ránsfeng

og hinum guðlausu á jörðinni sem herfang,

þeir munu vanhelga það.

22Ég mun snúa augliti mínu frá þeim

og þeir munu vanhelga fjársjóð minn.

Ræningjar munu brjótast inn í hann,

vanhelga hann

23og vinna spellvirki

því að landið er fullt af blóðsúthellingum

og borgin af ofbeldisverkum.

24Ég mun stefna hingað verstu þjóðum

sem munu kasta eign sinni á hús þeirra.

Ég mun binda enda á hroka hinna voldugu

og helgidómar þeirra verða vanhelgaðir.

25Skelfing kemur,

menn leita friðar án árangurs.

26Ógæfa á ógæfu ofan,

ein ótíðindin fylgja öðrum.

Þeir munu leita vitrunar hjá spámanni

en leiðsögnin bregst prestinum

og ráðgjöfin öldungunum.

27Konungurinn mun syrgja,

höfðinginn klæðast skelfingu,

landsbúum fallast hendur af ótta.

Ég launa þeim breytni þeirra

og dæmi þá eins og þeir hafa dæmt

og þeir skulu skilja að ég er Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help