Fyrri Samúelsbók 27 - Biblían (2007)

Davíð í landi Filistea

1Davíð hugsaði mér sér: „Sá dagur kemur að ég fell fyrir hendi Sáls. Ég sé ekki annað vænna en leita hælis í landi Filistea. Þá hættir Sál að leita mín um allt land Ísraels og þannig geng ég honum úr greipum, heill á húfi.“

2Davíð hélt því næst af stað og fór til Akíss Maókssonar, konungs í Gat. Honum fylgdu sex hundruð menn.

3Davíð settist að hjá Akís í Gat ásamt mönnum sínum. Höfðu þeir allir fjölskyldur sínar með sér og Davíð báðar konur sínar, Akínóam frá Jesreel og Abígail frá Karmel, sem verið hafði eiginkona Nabals.

4Þegar Sál frétti að Davíð væri flúinn til Gat hætti hann að leita hans.

5Einhverju sinni sagði Davíð við Akís: „Ef þú vilt mér vel, fáðu mér þá bústað í einhverri af borgunum á sléttunni svo að ég geti sest þar að. Hvers vegna ætti þjónn þinn að búa hjá þér í konungsborginni?“

6Akís fékk honum þegar í stað Siklag. Þess vegna á konungurinn í Júda Siklag enn þann dag í dag.

7Davíð bjó síðan á Filisteasléttunni eitt ár og fjóra mánuði.

8Davíð og menn hans fóru í ránsferðir gegn Gesúrmönnum, Girsítum og Amalekítum en þessar þjóðir hafa frá alda öðli búið í landinu sem veit að Súr og Egyptalandi.

9Þegar Davíð réðst á þetta land þyrmdi hann hvorki lífi karla né kvenna en sauðfé, naut, asna, úlfalda og fatnað tók hann með sér. Þegar hann sneri heim og kom aftur til Akíss

10spurði hann: „Hvert fóruð þið í ránsferð í dag?“ Þá svaraði Davíð: „Til suðurhéraða Júda,“ eða: „Suðurhéraða Jerakmelíta,“ eða: „Suðurhéraða Keníta.“

11Davíð lét hvorki karla né konur komast lifandi til Gat því að hann hugsaði með sér: „Enginn skal geta sagt: Þetta er verk Davíðs.“ Þetta var háttur hans allan tímann sem hann bjó á Filisteasléttunni.

12Akís treysti Davíð og hugsaði með sér: „Hann hefur vakið þvílíkt hatur hjá þjóð sinni, Ísrael, að hann verður ævinlega í minni þjónustu.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help